Taka bók um Harvey Weinstein úr sölu

Opinberanirnar í kringum Weinstein hjálpuðu til við að hefja hina …
Opinberanirnar í kringum Weinstein hjálpuðu til við að hefja hina hnattrænu #MeToo hreyfingu sem hvetur konur til að tala um kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Weinstein hefur verið ákærður fyrir nauðgun og bíður dómsuppkvaðningar í New York. AFP

Tveir helstu söluaðilar í Ástralíu hafa tekið bók sem fjallar um kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein úr sölu eftir lögfræðilegar hótanir frá fjölmiðlamanni sem er sagður hafa gert sitt til að takmarka neikvæða umfjöllun um Weinstein. 

Lögfræðingar sem starfa fyrir ástralska blaðamanninn Dylan Howard, framkvæmdastjóra hjá American Media Inc (AMI), skrifuðu bréf til bóksala áður en bókin, Catch and Kill, var gefin út síðastliðin mánudag. Í bréfinu segir að í bókinni sé mögulega að finna ærumeiðingar. 

Bókin er frásögn Ronan Farrow af rannsókn sinni á Weinstein en sá síðarnefndi hefur verið sakaður um að hafa áreitt tugi kvenna kynferðislega. 

Meiðyrðamál á hendur bóksölum

Farrow, sem skrifaði í tímaritið The New Yorker, hefur áður haldið því fram að Howard hafi hjálpað til við að verja Weinstein fyrir neikvæðri umfjöllun þegar hann starfaði sem ritstjóri National Enquirer sem er í eigu AMI. 

Booktopia og Amazon sem eru tveir af stærstu netsöluaðilum í Ástralíu hafa ekki sett bókina í sölu. Hvorugur söluaðilinn hefur fallist á að tjá sig um málið. 

Í bréfi frá lögmönnum Howards segir að ef söluaðili kjósi að dreifa bókinni í Ástralíu og Howard hafi rétt fyrir sér um ærumeiðingar í bókinni muni meiðyrðamál vera höfðað á hendur þeim söluaðila. 

Ronan Farrow er sonur Woody Allen. Hann er höfundur bókarinnar …
Ronan Farrow er sonur Woody Allen. Hann er höfundur bókarinnar umdeildu.

Völd notuð til að þagga niður umfjöllun um valdamisnotkun

Meiðyrðalög í Ástralíu eru afar flókin og eru meðal þeirra ströngustu í heiminum. Samt sem áður eru einhverjir söluaðilar enn að selja bókina. 

Mark Rubbo, framkvæmdastjóri sjálfstæðra bókabúða Readings í Melbourne, sagði í samtali við fréttastofu AFP að bréfið hefði borist þeim en bókabúðirnar myndu aðeins draga bókina frá sölu að ráði útgefandans.

Rubbo sagði sömuleiðis að ekki hefðu verið gefnar „nægilega góðar ástæður til að neita almenningi um aðgang að bókinni“ og benti á mikilvægi þess að gangast ekki við því þegar valdamiklir aðilar noti völd sín og ríkidæmi til að þagga niður fréttaflutning af valdamisnotkun þeirra. 

Farrow kallaði lagalegu hótanirnar „þýðingarlitlar“ og þakkaði öllum þeim sem létu í sér heyra vegna málsins því þeir væru að verja fjölmiðlafrelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert