Danir ekki drukknir uppvakningar

Sænska áfengisverslunin, Systembolaget, er lokuð á sunnudögum rétt eins og …
Sænska áfengisverslunin, Systembolaget, er lokuð á sunnudögum rétt eins og sú íslenska. Svíum er þó meiri vorkunn því til viðbótar er verslunum lokað klukkan þrjú á laugardögum. Þessu vilja hægrimenn breyta. Ljósmynd/Systembolaget

Það er víðar en á Íslandi sem þingheimur karpar um smásölu einkaaðila á áfengi. Sænski hægriflokkurinn Moderaterna hefur samþykkt ályktun þess efnis að sala á bjór og léttvíni skuli leyfð í matvöruverslunum. SVT greinir frá.

Benjamin Dousa, formaður ungliðahreyfingar flokksins, flutti tillöguna en hann sagði í ræðustóli að fyrirkomulagið virkaði í Danmörku og Þýskalandi, og hví skyldi það þá ekki virka í Svíþjóð. „Ganga Danir um líkt og drukknir uppvakningar? Nei,“ sagði Dousa íklæddur peysu sem á stóð „Rústum einokuninni“.

Tillagan er áþekk sumum af þeim fjölmörgu frumvörpum sem flutt hafa verið um sama mál hér á landi, en það gerir ekki ráð fyrir að sænska einokunarverslunin, Systembolaget, verði lögð niður, en hún mun til að mynda enn hafa einkaleyfi á sölu sterks áfengis. Þá skuli Systembolaget vera opið á sunnudögum.

Sala á drykkjum með áfengisinnihaldi umfram 3,5% er ekki heimil í almennum verslunum í Svíþjóð, en til samanburðar er viðmiðið hér á landi 2,25%. Verði vilji hægrimanna að veruleika verður þetta viðmið hækkað upp í 20%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert