Auglýstu bæinn á Finn til að bjarga skólanum

Kirkjan í Rugsund í Bremanger var reist árið 1838. Handan …
Kirkjan í Rugsund í Bremanger var reist árið 1838. Handan eyjarinnar grænu í baksýn tekur hin dreifða byggð bæjarins Kolset Krins við. Íbúum þar fjölgar nú nægilega til að réttlæta áframhaldandi rekstur skóla bæjarins. Ljósmynd/Wikipedia.org/Scarto

„Langar þig að búa í notalegum smábæ við ströndina í Sognsæ og Firðafylki? Byggðin í Kolset Krins hefur verið í litlum vexti síðustu ár og hér eru ekki mörg börn á grunnskólaaldri.“

Með þessum orðum hefst auglýsing byggðarþróunarnefndar smábæjarins Kolset Krins í sveitarfélaginu Bremanger við vesturströnd Noregs, en innan marka bæjarins búa um 250 íbúar í dreifðri byggð. Auglýsingin birtist á norsku auglýsingasíðunni Finn.no í vor og er neyðarkall bæjar sem er við það að tapa grunnskóla sínum sem tíu nemendur sækja nú.

Til að freista barnafjölskyldna býður sveitarfélagið þriggja mánaða húsaleigu fyrir hvert barn á grunnskólaaldri auk húsbyggingarstyrks sem nemur 200.000 norskum krónum, jafnvirði rúmlega 2,7 milljóna íslenskra króna. Tilboð þetta kann að virðast kunnuglegt þeim sem fylgdust með norsku sjónvarpsþáttaröðinni Himmelblå sem íslenska ríkissjónvarpið sýndi fyrir tæpum áratug við nokkrar vinsældir og sagði af eyjarskeggjum nokkrum sem lokkuðu til sín barnafólk svo skólahald legðist ekki af á eyjunni.

Tvær fjölskyldur bitu á

Staðarblaðið Fjordenes Tidende greindi frá málinu í sumar, fyrst fjölmiðla, en rekur læsta fréttasíðu. Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði um málið á sama tíma en nú dregur til tíðinda. Tvær barnafjölskyldur hafa bitið á agnið og eru á leið til Kolset Krins á næstu mánuðum með samtals fimm börn sem fjölga munu nemendum grunnskólans á staðnum um helming, úr tíu í 15, og greinir NRK frá tíðindunum í dag.

„Við fengum fín viðbrögð, 20 fyrirspurnir,“ segir Åse Leirgulen, sem á sæti í byggðarþróunarnefndinni, í samtali við NRK í dag. „Þrjár fjölskyldur komu og heimsóttu okkur í sumar. Þær fengu að skoða allan bæinn og var svo boðið í barnaafmæli,“ segist Leirgulen frá.

Hún segir tvær fjölskyldnanna hafa fallið fyrir byggðarlaginu smávaxna. „Tvær fjölskyldur ætla að koma hingað til reynslu, önnur kemur 1. janúar en helmingur hinnar er þegar kominn. Hinn helmingurinn kemur þegar starf er í hendi.“

Sá galli er þó á gjöf Njarðar að leiguhúsnæði er af skornum skammti í Kolset Krins og hefur byggðarþróunarnefndin látið þá áskorun út ganga til íbúanna að þeir bjóði til leigu húsnæði eða hluta húsnæðis sem þeir ekki nota sjálfir svo útvega megi nýju fólki þak yfir höfuðið.

Nefndin lætur þó ekki húsnæðiseklu standa sér fyrir þrifum og hyggst draga fleiri hugsanlega nýja íbúa að bænum, enda auglýsingin enn í birtingu á Finn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert