Andspyrnuhetja fallin frá

Yvette Lundy lést í gær.
Yvette Lundy lést í gær. AFP

Andspyrnuhetja Frakka, Yvette Lundy, sem bjargaði lífi fjölmargra gyðinga og lifði af hryllinginn í útrýmingarbúðum nasista, er látin 103 ára að aldri. Frönsk stjórnvöld greindu frá andláti hennar í gær.

Lundy, sem var yngst sjö systkina, ólst upp á bóndabæ skammt frá Epernay þar sem hún starfaði sem kennari á tímum hernámsins. Jafnframt starfaði hún í ráðhúsi Epernay þegar Þjóðverjar hernámu Frakkland í seinni heimsstyrjöldinni. Starfið þar kom sér vel fyrir hana þegar hún gekk til liðs við andspyrnuhreyfinguna Le réseau Possum. Frá árinu 1940 útvegaði hún gyðingum fölsuð skilríki sem og fólki sem var að flýja úr nauðungarvinnu Þjóðverja, STO, í Þýskalandi og föngum sem höfðu flúið og fengu skjól á bóndabæ bróður hennar, Georges. 

Lundy var handtekin af Gestapo í júní 1944 en þá var hún 28 ára gömul. Hún var send í Ravensbrück-fangabúðirnar, sem voru í um 80 km fjarlægð frá Berlín en búðirnar voru þær einu sem voru aðeins fyrir konur og börn. 

Hún sagði síðar að hún myndi aldrei gleyma niðurlægingunni þegar hún kom í búðirnar og var neydd til þess að afklæðast fyrir framan hóp liðsmanna SS. Líkami þinn er nakinn og heilinn er skyndilega tættur. Þú ert eins og hola, hola full af tómarúmi og hvert sem þú lítur sérðu ekkert nema tómleikann. 

Tæpu ári síðar var hún send í Kommando-þrælkunarbúðirnar skammt frá Weimar en fangarnir þar voru frelsaðir úr ánauð Þjóðverja af rússneska hernum í apríl 1945. Aðeins 15 ár eru síðan hún fór fyrst að segja opinberlega frá reynslu sinni frá því í seinni heimsstyrjöldinni. 

„Enn í dag hugsa ég daglega til búðanna. Oft á kvöldin áður en ég sofna,“ sagði Lundy í viðtali við AFP-fréttastofuna árið 2017. Hún var sæmd næstæðstu orðu franska ríkisins, Legion of Honour's, á aldarafmæli sínu. 

mbl.is