„Augu brenna, slík er mengunin.“

Milljónir íbúa höfuðborgar Indlands, Delí, hófu daginn á að reyna að komast leiðar sinnar í gegnum mengunarský sem brennir augun. Skólar eru lokaðir, bannað er að keyra og framkvæmdir stöðvaðar á meðan eiturgufur valda íbúum óþægindum og vanlíðan. 

Eitruð mengun er ekki ný af nálinni í Delí en staðan í dag er sú versta í þrjú ár. Segir borgarstjórinn að grípa verði til róttækra aðgerða. „Það er reykjarhula yfir öllu og fólk, þar á meðal ungmenni, börn, gamalt fólk, á í öndunarerfiðleikum, segir Arvind Kejriwal í myndskeiði á Twitter. „Augu brenna, slík er mengunin.“

Helmingi ökutækja borgarbúa hefur verið bannað að aka í borginni og ekki er heimilt að vinna við byggingarframkvæmdir. Jafnframt hefur grímum verið dreift til barna. 

Mengunin er víðar á Indlandi því óttast er að mengun geti farið illa með Taj Mahal, sem er vinsælasti áfangastaður ferðamanna í landinu. 

Kejriwal sagði í færslu á Twitter fyrir helgi að Delí hefði verið breytt í „gas­klefa“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert