Dómari skipar Trump að greiða 2 milljónir dollara

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir hvert penní hafa farið til góðgerðasamtakanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir hvert penní hafa farið til góðgerðasamtakanna. AFP

Dómari í New York hefur skipað Donald Trump Bandaríkjaforseta að greiða tvær milljónir dollara í bætur fyrir misnotkun á góðgerðasamtökum sínum, sem Trump er sagður hafa notað til að fjármagna forsetaframboð sitt árið 2016.

Góðgerðarsamtökin Donald J Trump Foundation voru lögð niður árið 2018 og hafa saksóknarar sagt samtökin hafa verið lítið annað en „ávísanahefti“ fyrir áhugamál Trumps.

Var það úrskurður dómara að góðgerðasamtök, líkt og þau sem Trump var í forsvari fyrir ásamt þremur barna sinna, geti ekki tekið þátt í stjórnmálum. Segir BBC Trump hafa verið fljótan að svara og segja að „hvert einasta penní“ hafi farið til góðgerðarsamtakanna.

„Ég er eina manneskjan sem ég veit um, mögulega eina manneskjan í sögunni, sem getur gefið háar fjárhæðir til góðgerðasamtaka (19 milljónir dollara), rukkað engan kostnað og orðið samt fyrir árásum pólitískra þrjóta í New York-ríki,“ skrifaði forsetinn á Twitter.

Sakaði hann enn fremur ríkissaksóknara New York, Letitia James, sem sótti málið, um að „vitandi vits rangtúlka niðurstöðurnar í pólitísku skyni“.

Dómarinn Saliann Scarpulla sagði Trump hins vegar hafa „brotið gegn skyldu sinni sem fjárhaldsmaður“ með því að heimila að sjóður sem settur var á laggirnar fyrir fyrrverandi hermenn yrði notaður vegna forkosninganna í Iowa 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert