Lostafull skrif skapara James Bond

Ian Fleming á skrifstofu sinni á Jamaica þar sem hann ...
Ian Fleming á skrifstofu sinni á Jamaica þar sem hann skapaði James Bond.

Bréf, með lostafullum og kynferðislegum undirtón, rituð af skapara James Bond, Ian Fleming og eiginkonu hans, Ann, eru til sölu á uppboði sem hófst í dag. Parið kynntist árið 1934 en Ann var gift fyrsta eiginmanni sínum á þeim tíma. Þau Fleming gengu ekki í hjónaband fyrr en árið 1952, sama ár og hann skrifaði Casino Royal, fyrstu skáldsöguna um ofurnjósnarann.

Bréfin, einkum og sér í lagi þau sem eru rituð áður en þau gengu í hjónaband, einkennast af miklum tilfinningahita þeirra á milli. Í einu þeirra biður Ann Fleming um að leggja hana, vopnaða svipu úr nautsleðri, í rúmið. Með svipunni gæti hún látið hann hegða sér vel næstu fjörutíu árin. Alls eru bréfin rúmlega 160 talsins og er áætlað að fáist 200-300 þúsund pund fyrir þau en sölunni lýkur í byrjun desember.

Gabriel Heaton, sérfræðingur í bókum og handritum hjá Sotheby's-uppboðshúsinu segir að bréfin veiti upplýsingar um Fleming sem aldrei hafa komið fram fyrr.

Bréfaskrifin hófust þegar hann vann hjá leyniþjónustunni í seinni heimsstyrjöldinni. Þau ná yfir tímabil þegar Fleming var blaðamaður og eins sköpun Bond, þar á meðal tímabil þegar hann dvaldi á Jamaíka við skriftir. „James Bond er að miklu leyti sköpunarverk sambands Ian og Ann,“ segir Heaton.

Það er engin tilviljun að Ian skrifaði sína fyrstu skáldsögu um Bond sama ár og þau gengu í hjónaband. Bæði fær hann útrás fyrir kynhvöt og ímyndunarafl sitt þar á sama tíma og hann reynir að afla fjár fyrir konu sem var fáránlega rík áður, segir Heaton.

Í bréfunum birtist sálarkreppa þeirra hjóna þegar dóttir þeirra lést aðeins nokkurra klukkutíma gömul. Á þeim tíma var Ann enn gift eiginmanni númer tvö, blaðaútgefandanum Viscount Rothermere.

„Ég get ekkert sagt til þess að láta þér líða betur. Eftir allt þetta strit og sársauka er það erfitt. Ég get aðeins boðið fram faðmlag mitt, ást mína og bænir,“ skrifar Fleming til hennar. Þau eignuðst síðar son, Caspar, sem faðirinn fagnaði með því að kaupa gyllta ritvél. Bréfin lýsa glaumi og gleði forréttindafólks en einnig auknum biturleika þegar leið á sambandið.

„Þú minnist á gömlu slæmu piparsveinadagana, eina manneskjan sem þú hættir að sofa hjá þegar þeim lauk var ég,“ skrifar Ann í einu bréfanna.

Í annarri bók lýsir Fleming því hversu vel honum gengur að skrifa bækurnar um Bond. „Ég hef skrifað þriðjung hennar á einni viku, kafli á dag. Ég geri ráð fyrir að ég festist fljótlega en eins og staðan er nú gengur þetta vel og vekur ánægju,“ segir Ian í bréfi til Ann þegar hann lýsir skrifum bókarinnar From Russia with Love.

mbl.is

Bloggað um fréttina