Pútín heitir að ljúka við vopn sem olli sprengingu

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hét fjölskyldum fórnarlambanna að ljúka gerð eldflaugarinnar.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hét fjölskyldum fórnarlambanna að ljúka gerð eldflaugarinnar. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur heitið því að setja aukinn þrýsting á smíði kjarnaflaugar, líkt og þeirrar sem talin er hafa valdið banvænni sprengingu fyrr á þessu ári. BBC greinir frá.

Fimm vísindamenn og tveir til viðbótar létust í sprengingu sem varð í ágúst á Nyonoksa-til­rauna­svæðinu í Arkangelsk. Hafa sérfræðingar í varnarmálum sagst telja um að ræða kjarnaknúna eldflaug.

„Við munum svo sannarlega ljúka gerð þessa vopns óháð öllu öðru,“ sagði Pútín við ekkjur fórnarlambanna. Eigi Rússar svo „einstaka tækni“ geti þeir með „öruggum hætti tryggt frið á jörðu“.

Lét Pútín þessi orð falla við athöfn í Kreml þar sem hinum látnu var veitt viðurkenning sem fjölskyldur þeirra tóku við.

Pútín tilgreindi ekki hvaða vopn væri um að ræða, en sagði „tæknihugmyndir og lausnir“ sem þar væru notaðar hvergi í heiminum eiga sér jafningja.

Spreng­ing­in er sögð hafa orðið þegar eld­ur kom upp í eldsneyti við til­raun með eld­flaug sem til stóð að skjóta á loft af skot­palli á hafi úti og var sprengingin svo öflug að nokkrir þeyttust á haf út.

Auk þeirra fimm sem lét­ust slösuðust sex manns í spreng­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert