Elon Musk sýknaður af milljarða bótakröfu

Elon Musk þarf ekki að greiða bætur vegna ummæla sinna …
Elon Musk þarf ekki að greiða bætur vegna ummæla sinna um Unsworth. AFP

Athafnamaðurinn og forstjóri Tesla, Elon Musk, hefur verið sýknaður af milljarða bótakröfu breska kafarans Vernon Unsworth. Kviðdómur í Los Angeles komst að þessari niðurstöðu fyrir skemmstu.

Unsworth stefndi Musk og krafðist 190 milljóna Bandaríkjadala, rúmlega 23 milljarða króna,  í skaða- og refsibætur eftir að Musk kallaði hann barnaníðing (e. pedo guy) á samfélagsmiðlinum Twitter. Musk baðst afsökunar á þeim ummælum en skömmu síðar kallaði hann Unsworth aftur barnaníðing í bréfi til fjölmiðla.

Málflutningi lauk nú fyrr í kvöld og það tók kviðdóm ekki nema tæplega klukkustund að komast að niðurstöðu. Niðurstaðan var sú að ummæli Musk væru ekki bótaskyld.

Um­mæli Musk féllu eft­ir að Unsworth gerði grín að áætl­un hans um að bjarga 12 ung­um fót­boltastrák­um úr neðan­sjáv­ar­helli í Tæl­andi í fyrra. Musk hafði boðist til að aðstoða við björg­un­araðgerðir með því að leyfa björg­un­araðilum að nota lít­inn kaf­bát.

Sú aðstoð var afþökkuð og síðar sagði Unsworth, sem kom að björg­un drengj­anna, að kaf­bát­ur­inn hefði „ekk­ert gagn getað gert“ við þær aðstæður sem voru á vett­vangi. Unsworth sagði enn­frem­ur að til­laga Musk hefði verið uppá­tæki til að vekja at­hygli á hon­um sjálf­um og sagði Musk að „stinga kaf­bátn­um þar sem það meiddi“.

mbl.is