„Ómanneskjulegar aðstæður“

Ingrid Martinussen ræðir við norska fjölmiðla í Tókýó í gær, …
Ingrid Martinussen ræðir við norska fjölmiðla í Tókýó í gær, frelsinu fegin. Hún segir aðstæður á lögreglustöðinni, þar sem henni var haldið í gæsluvarðhaldi í þrjár vikur, ómanneskjulegar. Japanskur lagaprófessor segir fíkniefnamál litin gríðarlega alvarlegum augum í þar í landi. Skjáskot/NRK

„Ég reyndi bara að hugsa á jákvæðu nótunum meðan ég sat þarna. Þetta var mjög erfitt og ég get ekki sagt að ég hafi fengið góða meðferð,“ sagði Ingrid Martinussen, 32 ára gamall norskur nemandi við Sophia-háskólann í Tókýó í Japan, þegar hún ræddi við norska fjölmiðla í gærmorgun, nýsloppin úr prísund sem henni líður seint úr minni, þriggja vikna gæsluvarðhaldi á japanskri lögreglustöð í Saitama, rétt utan við Tókýó.

Þar sat Martinussen í galtómum fangaklefa, var aðeins látin hafa dýnu yfir nóttina, milli þess sem hún sætti yfirheyrslum hjá lögreglumönnum sem lögðu mjög hart að henni að játa brot sitt; að hafa pantað 140 grömm af maríjúana og látið senda sér með smákökum sem komu frá vinkonu hennar í Bandaríkjunum. „Þetta voru ómanneskjulegar aðstæður,“ sagði hún um dvölina á lögreglustöðinni.

Ekki hugmynd um fíkniefnin

„Ég ætla að klára það sem ég er að gera núna hérna í Japan. Draumurinn minn var alltaf að búa hérna, en nú er ég ekki svo viss um að mig langi til þess lengur,“ sagði Martinussen í gær og kveðst ekki hafa hugmynd um hvernig fíkniefnin enduðu í sendingunni, smákökurnar hafi hún beðið vinkonuna að senda sér, annað ekki. Hún leggur stund á meistaranám í umhverfisfræðum við háskólann.

Stian Šmakić Sopp, fyrrverandi formaður ANSA, sam­taka norskra náms­manna er­lend­is, sem einnig stundar nám í Tókýó, einhenti sér í mál Martinussen og tókst að útvega henni norskumælandi lögmann, Farid Bouras. Bouras fór þegar í að útvega afrit af öllum samskiptum Martinussen við bandarísku vinkonuna, en þau fóru fram gegnum Twitter.

Ekkert í þeim samskiptum gaf til kynna að Martinussen hefði beðið vinkonuna um maríjúana með kökunum og féllst saksóknari þá á að endurskoða rannsókn málsins sem lyktaði með því að Martinussen var sleppt snemma dags í gær að evrópskum tíma. Bouras sagði í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í kvöldfréttum í gær að málið yrði að öllum líkindum fellt niður en slíkt gæti þó tekið tíma í japanska kerfinu. Martinussen hefur þó fengið vegabréf sitt, tölvu og síma til baka en þetta lagði lögregla hald á við handtöku hennar.

Játningar knúðar fram með harðfylgi

NRK ræddi einnig við japanska lagaprófessorinn Makoto Ibusuki við Seijo-háskólann í Tókýó sem sagði fíkniefnamál litin gríðarlega alvarlegum augum í Japan, refsing fyrir handhöfn 140 gramma af maríjúana væri að lágmarki fimm ára fangelsi.

Glæpatíðni í Japan er með þeirri lægstu í heiminum og segir Ibusuki lögreglu þar í landi þekkta fyrir þá aðferðafræði að knýja fram játningar í sakamálum af miklu harðfylgi. „Játi hinn grunaði við yfirheyrslur hjá lögreglu fær hann ágæta meðferð eftir það,“ útskýrir Ibusuki, „þú ferð þá annaðhvort fyrir dómara eða ert látinn laus. Það ferli er einfalt. En játi hinn grunaði ekki brotið, eins og í tilfelli norsku konunnar, kemur annað hljóð í strokkinn.

Þá breytist viðhorf lögreglunnar. Hún heimtar játningu og gengur mjög hart fram. Játi grunaði ekki er honum bara haldið lengur í gæsluvarðhaldi,“ segir prófessorinn.

Þungu fargi er létt af Martinussen og fjölskyldu hennar, fréttaritari NRK í Japan var viðstaddur þegar henni var sleppt úr fangaklefanum og lét hún það verða sitt fyrsta verk að hringja í föður sinn í Noregi.

Smákökur af sömu gerð og bakkelsið örlagaríka sem Ingrid Martinussen …
Smákökur af sömu gerð og bakkelsið örlagaríka sem Ingrid Martinussen fékk sent frá bandarískri vinkonu. Einhvern veginn höfðu 140 grömm af maríjúana hafnað með í pakkanum, nokkuð sem varðar fimm ára fangelsisrefsingu í Japan. Ljósmynd/Úr einkasafni

NRK

NRK II (rætt við Ibusuki)

VG

Dagbladet

mbl.is