Mistök eða réttmæt gagnrýni?

Marc Veyrat er einn helsti matreiðslumeistari Frakklands.
Marc Veyrat er einn helsti matreiðslumeistari Frakklands. AFP

Á morgun mun franskur dómstóll úrskurða hvort Michelin-veitingastaðabiblían þurfi að upplýsa um ástæður fyrir því að veitingahúsaeigandi var sviptur einni af þremur Michelin-stjörnum sínum aðeins ári eftir að hann hlaut þær.

Matreiðslumeistarinn heimsfrægi Marc Veyrat höfðaði málið eftir að veitingastaður hans, Maison des Bois í frönsku Ölpunum, var sviptur þriðju stjörnunni í janúar. Ákvörðun Michelin þótti gríðarlegt áfall þar sem endurkoma Veyrats í veitingarekstur hafði vakið mikla athygli; níu árum eft­ir að hann neyddist til þess að hætta elda­mennsku eft­ir al­var­legt skíðaslys og þrem­ur árum eft­ir að veit­ingastaður hans í Ölp­un­um, La Mai­son des Bois, varð eldi að bráð.

Réttur á La Maison de Bois.
Réttur á La Maison de Bois. Af vef La Maison de Bois

Meistarinn sakaði óhæfa gagnrýnendur um að hafa viljað klekkja á sér og ekki síst fyrir að saka hann um að nota enskan cheddarost í eggjafrauð staðarins (soufflé).

Á fundi með nýjum framkvæmdastjóra Michelin, Gwendal Poullennec, í mars var Veyrat tilkynnt að hörpudiskur á staðnum hefði verið of mjúkur. Kokkurinn brást illa við og benti á að hann væri ekki með hörpudisk á matseðlinum heldur væri þetta fiskur sem væri veiddur í fjöllunum.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Michelin í Frakklandi en þau gerðu mistök í mínu tilviki og verða að viðurkenna það,“ sagði Veyrat nýverið í viðtali við AFP.

Af vef La Maison de Bois

Eftir að hafa reynt en fengið synjun um að nafn hans yrði fjarlægt af lista Michelin um alla framtíð fór hann fram á að Michelin yrði gert að leggja fram gagnrýnina sem sérfræðingar þeirra lögðu fram og punktana sem þeir skrifuðu þegar þeir ákváðu að taka af honum eina stjörnu. Veyrat fór einnig fram á að fá eina evru í miskabætur fyrir áfallið sem þetta var fyrir hann.

Ef Veyrat hefur betur á morgun og Michelin neyðist til þess að leggja fram upplýsingarnar getur það breytt öllu þegar kemur að stjörnugjöf á fínustu stöðum heims. „Ég þarf ekki á þeim að halda,“ segir Veyrat og vísar í Michelin-stjörnurnar. Viðskiptin hafi aukist um 7% á árinu og aldrei hafi eftirspurnin verið jafn mikil um jól og áramót og nú. „Ég vildi óska þess að þau hefðu tekið af mér allar stjörnurnar.“

Lögmenn Michelin hafa fordæmt lögsóknina og segja hana misnotkun sjálfselskrar prímadonnu á réttarkerfinu. Krefjast þeir þess að Veyrat greiði 30 þúsund evrur í miskabætur. 

„Þetta er spurning um að virða málfrelsi og gagnrýni í landi okkar,“ segir Richard Malka, lögfræðingur Michelin. Ekki sé hægt að láta þetta frelsi hverfa í þágu einhverrar frægrar manneskju sem er ósátt. Malka sagði við réttarhöldin í nóvember að Michelin-biblían væri fyrir viðskiptavini, ekki matreiðslumenn. 

Veyrat er sjálfmenntaður matreiðslumaður en hefur nánast allt sitt líf eldað í þorpinu sem hann ólst upp í, Manigod. Þorpið er í 1.600 metra hæð í Ölpunum, skammt frá Annecy. Í nóvember var Veyrat nefndur sem einn af tíu ódauðlegum stjörnum franska eldhússins hjá French Gault & Millau, keppinaut Michelin. Meðal annarra á listanum eru Alain Ducasse og Guy Savoy.

Upplýsingar um La Maison de Bois

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert