Sjö karlar og fimm konur í kviðdómi í máli Weinstein

Réttarhöld hófust yfir Harvey Wein­stein í upphafi árs, en hann …
Réttarhöld hófust yfir Harvey Wein­stein í upphafi árs, en hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi verði hann fund­inn sek­ur. AFP

Sjö karlmenn og fimm konur skipa kviðdóm sem dæma mun í máli Harvey Weinstein. Ellefu dagar eru síðan réttarhöldin hófust og hefur tíminn hingað til farið í að ná sátt um þá sem skipa kviðdóminn, en 700 manns komu til greina. 

Réttarhöldin fara fram í New York og Wein­stein gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi verði hann fund­inn sek­ur, en hann er ákærður í fimm liðum, meðal ann­ars fyr­ir nauðgun og kyn­ferðis­brot gegn tveim­ur ónafn­greind­um kon­um. Hann neit­ar sök.

Sama dag og réttarhöldin hófust var Weinstein ákærður í tveimur liðum fyr­ir nauðgun og kyn­ferðis­brot í tengsl­um við tvö aðskil­in at­vik á tveim­ur dög­um árið 2013. Brotin áttu sér stað í Los Angeles. 

Yfir 80 konur hafa stigið fram og ásakað hann um kyn­ferðis­lega áreitni og kyn­ferðis­legt of­beldið síðustu þrjú ár, en fyrstu ásakanirnar urðu kveikjan að #metoo-hreyfingunni. 

Wein­stein gaf sig fram við lög­reglu í maí 2018 og var í kjöl­farið ákærður fyr­ir nauðgun og kyn­ferðis­brot gegn kon­un­um tveim­ur en var lát­inn laus mánuði síðar gegn einn­ar millj­ón­ar doll­ara trygg­ingu. Ákær­urn­ar voru sex í upp­hafi en dóm­ari lét eina þeirra niður falla vegna ósam­ræm­is í vitn­is­b­urði meints fórn­ar­lambs. 

Saksóknari og lögmenn Weinstein munu flytja opnunarávörp sín á miðvikudag en ráðgert er að rétt­ar­höld­in taki um átta vik­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert