Tvær nýjar ákærur gegn Weinstein

Harvey Weinstein (fyrir miðju) yfirgefur réttarsalinn í New York í …
Harvey Weinstein (fyrir miðju) yfirgefur réttarsalinn í New York í dag. AFP

Kvikmyndamógúllinn fyrrverandi, Harvey Weinstein, hefur verið ákærður í Los Angeles fyrir nauðgun og kynferðisbrot í tengslum við tvö aðskilin atvik á tveimur dögum árið 2013.

Greint var frá þessu á sama tíma og réttarhöld hófust yfir honum í New York þar sem hann er ákærður í fimm liðum, meðal annars fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur ónafngreindum konum.

Verði hann fundinn sekur í New York á hann yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Í ákærunni í Los Angeles kemur fram að Weinstein hafi hinn 18. febrúar 2013 gengið inn á hótel í Los Angeles og nauðgað konu sem þar dvaldi.

Daginn eftir er hann sagður hafa ráðist á konu á hótelsvítu í Beverly Hills.

„Við teljum að sönnunargögnin sýni að sakborningurinn notaði vald sitt og áhrif til að komast til fórnarlamba sinna og brjóta á þeim á ofbeldisfullan hátt,“ sagði Jackie Lacey, ríkissaksóknari í Los Angeles, í yfirlýsingu.

Hún þakkaði einnig konunum tveimur fyrir að hafa stigið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert