Fyrrverandi sendiherra ESB gagnvart Íslandi grunaður um njósnir

Gerhard Sabathil þegar hann gegndi embætti sendiherra ESB gagnvart Íslandi …
Gerhard Sabathil þegar hann gegndi embætti sendiherra ESB gagnvart Íslandi og Noregi. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrrverandi sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi, Gerhard Sabathil, er grunaður af þýskum yfirvöldum um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld. Sabathil, sem er með bæði þýskt og ungverskt ríkisfang, starfaði áður fyrir framkvæmdastjórn sambandsins og gegndi síðar einnig embætti sendiherra þess gagnvart Suður-Kóreu.

Eftir að Sabathil, sem var sendiherra gagnvart Íslandi og Noregi á árunum 2000-2004, lét af störfum fyrir Evrópusambandið hóf hann störf hjá almannatenglafyrirtækinu Eutop. Tveir aðrir eru grunaðir í málinu, sem talið er að Sabathil hafi fengið til liðs við sig, og hefur húsleit verið gerð á þremur stöðum í Þýskalandi vegna rannsóknar málsins.

Málið þykir varpa ljósi á veikleika Evrópusambandsins þegar kemur að njósnum Kínverja og vekja upp frekari spurningar varðandi fjárfestingar kínverskra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði álfunnar. Bandarísk stjórnvöld hafa varað Evrópuríki við því að heimila kínverska fjarskiptafyrirtækinu Huawei að byggja upp 5G-fjarskiptakerfi þeirra.

Enn sem komið er hefur enginn verið handtekinn vegna málsins en það þykir fremur vandræðalegt fyrir Evrópusambandið í ljósi þess að Sabathil starfaði í áratugi fyrir sambandið og gegndi þar ýmsum hátt skrifuðum störfum. Hann var sendiherra í Suður-Kóreu til ársins 2016 þegar öryggisheimild hans var afturkölluð og hætti störfum fyrir Evrópusambandið árið eftir og gekk þá til liðs við Eutop sem fyrr segir.

Lögmaður Sabathils hefur vísað ásökunum á hendur honum alfarið á bug en fjölmiðlum hefur gengið illa að ná tali af Sabathil þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert