Hvatti kviðdóminn til að sýkna Weinstein

Weinstein á leið í réttarsalinn í New York í dag.
Weinstein á leið í réttarsalinn í New York í dag. AFP

Verjendur Harvey Weinstein hvöttu kviðdómendur til að sýkna kvikmyndamógúlinn fyrrverandi af ákærum um nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur konum í lokaræðu í réttarhöldunum yfir honum, þrátt fyrir að slíkur úrskurður gæti orðið óvinsæll.

Donna Rotunno, aðallögmaður Weinstein, sagði að saksóknarar hefðu búið til „hliðstæða veröld“ þar sem skjólstæðingur þeirra hafi ráðist á ungar og efnilegar leikkonur. Engar sannanir þess efnis hafi aftur á móti komið fram.

„Hann var saklaus þegar hann gekk inn um dyrnar. Hann var saklaus þegar vitni byrjuðu að tjá sig. Hann er saklaus er hann situr hérna núna," sagði Rotunno.

Weinstein, sem er 67 ára, á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur.

Síðan réttarhöldin yfir honum hófust 22. janúar hafa sex konur borið vitni og sagt að hann hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert