Landsþingi Demókrataflokksins frestað

Joe Biden á blaðamannafundi.
Joe Biden á blaðamannafundi. AFP

Landsþingi bandaríska Demókrataflokksins hefur verið frestað til 17. ágúst vegna kórónuveirunnar. Ef það gengur eftir verður það haldið fimm vikum síðar en til stóð. 

Á landsþinginu verður tilkynnt hver mun etja kappi fyrir hönd flokksins við Donald Trump Bandaríkjaforseta í forsetakosningunum í nóvember.

„Vegna óvissunnar sem er núna ríkjandi teljum við skynsamlegast að láta lengri tíma líða til að geta fylgst með þróun mála þannig að við getum tryggt flokknum okkar öruggt og árangursríkt landsþing,“ sagði Joe Solmonese, formaður landsþingsins, í yfirlýsingu.

Ákvörðunin var tekin eftir að Joe Biden, sem er líklegur til að verða útnefndur forsetaefni flokksins, lýsti yfir stuðningi við að fresta þinginu, sem átti að halda 13.-16. júlí í Milwaukee í Wisconsin.

Donald Trump á blaðamannafundi.
Donald Trump á blaðamannafundi. AFP
mbl.is