20.000 í sóttkví á einu bretti

Starfsfólk Karachi borgar úðar sótthreinsivökva á götur borgarinnar fyrr í …
Starfsfólk Karachi borgar úðar sótthreinsivökva á götur borgarinnar fyrr í dag. AFP

Pakistönsk yfirvöld skipuðu í dag um 20.000 manns sem sóttu samkomu fyrir múslima í Lahore í mars í sóttkví, og leita enn tuga þúsunda til viðbótar. Segja þarlend yfirvöld að þau vilji taka sýni úr eða skipa þá í sóttkví sem komu saman á fyrrnefndri trúarsamkundu, vegna ótta um að fólk sem þangað fór sé nú smitberar kórónuveirunnar, bæði innanlands og utan.

Yfir 100.000 manns mættu á samkomuna, sem haldin var 12.-15. mars, og var hún haldin þrátt fyrir að yfirvöld hefðu óskað eftir því að henni yrði aflýst vegna kórónuveirunnar. Fjöldi útlendinga, frá löndum eins og Kína, Indónesíu, Nígeríu og Afganistan, sótti samkomuna og eru um 1.500 útlendingar nú í sóttkví í Pakistan, en aðrir sneru til síns heima án þess að úr þeim væri tekið sýni.

Samkvæmt opinberum tölum hafa alls 45 látist af völdum kórónuveirunnar í Pakistan, en vegna þess hve möguleikar á sýnatöku eru skertir telja margir að talan sé í raun mun hærri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert