Ráðlagt að finna sér bólfélaga

Fólk út í sólinni í Vondelpark í Amsterdam.
Fólk út í sólinni í Vondelpark í Amsterdam. AFP

Hollensk stjórnvöld hafa gefið út ráðleggingar til einhleypra sem sækjast eftir nánum kynnum á meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur. Eru þeir hvattir til að finna sér bólfélaga.

Einhleypum er ráðlagt að komast að samkomulagi við eina aðra manneskju. Forðast skal kynlíf ef aðra manneskjuna grunar að hún sé smituð af kórónuveirunni.

Ráðleggingarnar voru settar fram eftir gagnrýni þess efnis að engar slíkar væru til staðar fyrir einhleypa og kynlíf þeirra, að sögn BBC.

Fólk á ferli í hollenska strandbænum Zandvoort, vestur af Amsterdam.
Fólk á ferli í hollenska strandbænum Zandvoort, vestur af Amsterdam. AFP

Hollendingar hafa verið beðnir um að halda sig í öruggri fjarlægð hverjir frá öðrum síðan 23. mars. Reglur um fjöldatakmarkanir hafa þó verið rýmri heldur en í nágrannalöndunum og hefur fólk mátt hittast í litlum hópum.

Í ráðleggingunum, sem voru birtar í gær, kemur fram að „það sé eðlilegt af ef þú ert einhleypur þurfir þú einnig á líkamlegri snertingu að halda“ á meðan á faraldrinum stendur.

Fram kemur samt að því fleiri manneskjur sem þú hittir séu meiri líkur á því að þú smitist af veirunni.

Alls hafa tæplega 44 þúsund manns smitast af kórónuveirunni í Hollandi. Yfir 5.500 hafa látið lífið.

mbl.is