Ungverjar brjóta á rétti flóttafólks

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán.
Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán. AFP

Ungverjaland braut á rétti flóttafólks sem haldið var í búðum í meira en ár eftir að umsókn þess um alþjóðlega vernd var synjað. Þetta er niðurstaða Evrópudómstólsins í máli sem íranskar og afganskar fjölskyldur höfðuðu gagnvart stjórnvöldum í Ungverjalandi.

Stjórnvöld í Ungverjalandi hafa tekið hart á flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd en búðirnar sem um ræðir eru í bænum Roszke, gámabyggð umkringdri gaddavírsgirðingum við landamæri Serbíu. 

Evrópudómstóllinn kvað upp dóm sinn í gær og segir að ekki megi halda hælisleitendum í búðunum í meira en fjórar vikur og ekki án þess að mál þeirra séu til sérstakrar skoðunar. 

Niðurstaðan er enn einn prófsteinninn á samband Ungverjalands og yfirvalda í Evrópusambandinu en samkvæmt Evrópudómstólnum má ekki undir neinum kringumstæðum halda fólki lengur en fjórar vikur í varðhaldi og er þar miðað við daginn sem sótt er um hæli. 

Mannréttindasamtökin Hungarian Helsinki Committee (HHC), sem annaðist málsókn fjölskyldnanna, fagnaði niðurstöðu dómstólsins í gær og segja hana þýða að búðirnar jafngildi því að halda fólki ólöglega. Allir þeir sem hafa verið í haldi í slíkum búðum lengur en fjórar vikur eiga rétt á að vera látnir lausir. Ef enn er í gangi hælisumsóknarferli á annaðhvort að koma þeim fyrir í opnum búum eða í búðum fyrir hælisleitendur segir Andras Lederer hjá HHC í samtali við AFP-fréttastofuna.

Tvennar slíkar búðir eru í Ungverjalandi þar sem fólki er haldið í skipagámum á bak við gaddavírsgirðingar og hefur aðbúnaðurinn verið harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum. 

Í fyrra varaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ungversk stjórnvöld við og sögðu búðirnar brjóta gegn mannréttindalögum Evrópu. 

Með breytingum sem gerðar voru á ungversku stjórnarskránni 2018 hafa Ungverjar á sjálfvirkan hátt hafnað öllum hælisumsóknum frá þeim sem koma þangað frá „öruggum löndum“. Í þessu tilviki Serbíu. 

Talsmaður ríkisstjórnar Ungverjalands, Zoltan Kovacs, segir þetta ekki breyta neinu um stöðu stjórnvalda. Reglur og lög Ungverjalands séu í samræmi við ESB og alþjóðleg lög þar sem hælisleitendur hafi getað, ef þeir vildu, snúið aftur til Serbíu hvenær sem er. „Þetta fólk er ekki lengur hælisleitendur þar sem umsókn þess var hafnað fyrir löngu síðan. Þess vegna getur það ekki komið inn í Ungverjaland á löglegan hátt,“ segir hann.  

Vera Jourova, sem situr í framkvæmdastjórn ESB, segist vonast til þess að Ungverjaland muni verða aftur meðal ríkja þar sem lýðræði er virt án nokkurs vafa. Ummæli hennar koma í kjölfar ummæla bandarísku eftirlitsstofnunarinnar með mannréttindum, Freedom House, um að Ungverjaland geti ekki lengur talist lýðræðisríki.

mbl.is