Teikningar höfundar Ástríks gagnast sjúkrahúsum

Albert Uderzo ásamt fólki í gervi Ástríks og Steinríks árið …
Albert Uderzo ásamt fólki í gervi Ástríks og Steinríks árið 2015. AFP

Fjórar teikningar eftir Albert Uderzo, manninn á bak við teiknimyndahetjurnar Ástrík og Steinrík, seldust á uppboði fyrir um 60 milljónir króna í dag. Öll upphæðin mun renna til sjúkrahúsa í París.

Uderzo lést úr hjartaáfalli eftir að hafa smitast af kórónuveirunni í mars, 92 ára gamall.

Ekkja hans, Ada, sagði að með uppboðinu hefði hún viljað þakka „nýju hetjunum okkar sem hafa staðið uppi í hárinu á innrásaraðilanum,“ og vísaði þar í veiruna sem hefur orðið yfir 28 þúsund manns að bana í Frakklandi.

Teikningarnar fjórar seldust samanlagt á 390 þúsund evrur.

Uderzo skapaði Ástrík og Steinrík í samstarfi við handritshöfundinn René Goscinny og hélt starfinu áfram eftir að Goscinny lést árið 1977.

Yfir 380 milljónir bóka um Ástrík og Steinrík hafa selst um heim allan á 111 tungumálum. Einnig hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tölvuleikir upp úr sögunum.

Albert Uderzo og René Goscinny.
Albert Uderzo og René Goscinny. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert