Sex milljónir manna hafa greinst með veiruna

Kirkjugestir í bænum Porto Alegre í Brasilíu biðja líklegast fyrir …
Kirkjugestir í bænum Porto Alegre í Brasilíu biðja líklegast fyrir skjótum endi kórónuveirufaraldursins. AFP

Staðfest kórónuveirusmit í heiminum eru nú orðin fleiri en sex milljónir samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og opinberum tölum frá stjórnvöldum víða um heim. Skráð dauðsföll eru tæplega 367 þúsund talsins.

Tveir þriðju af staðfestum smitum hafa greinst í Evrópu og Bandaríkjunum. Í Evrópu hefur rúmlega 2,1 milljón manna greinst með COVID-19 sjúkdóminn og 178 þúsund hafa látið lífið.

Staðfestum smitum fjölgar þó áfram í öðrum heimsálfum og þá helst í Suður-Ameríku. Dauðsföll í Brasilíu eru nú orðin 28.834 talsins sem þýðir að landið er komið í fjórða sæti á lista yfir flest dauðsföll.

Staðfest smit þar í landi eru 498 þúsund sem er annar mesti fjöldi í einu landi á eftir Bandaríkjunum.

Í Bandaríkjunum hafa 103 þúsund manns látið lífið af völdum COVID-19. Bretland er í öðru sæti en þar hafa 38 þúsund látið lífið og á Ítalíu hafa 33 þúsund manns látið lífið.

mbl.is