Hótunarbréfið komið í hendur fjölmiðla

Norska lögreglan á vettvangi, heimili Hagen-hjónanna við Sloraveien í Lørenskog.
Norska lögreglan á vettvangi, heimili Hagen-hjónanna við Sloraveien í Lørenskog. AFP

Norska dagblaðið VG hefur undir höndum hótunarbréfið sem Tom Hagen segir að sér hafi borist eftir að eiginkona hans, Anne Elisabeth Hagen, hvarf af heimili þeirra hjóna árið 2018.

„VIÐ ERUM MEÐ KONUNA ÞÍNA ANNE ELISABETH. EF ÞÚ VILT SJÁ HANA AFTUR. MUNT ÞÚ LESA OG FYLGJA LEIÐBEININGUNUM FULLKOMLEGA“, segir í upphafi bréfsins sem er allt í hástöfum og varla hægt að teljast til fyrirmyndar hvað málfræði varðar.

„VENJULEG VIÐBRÖGÐ VÆRU AÐ HRINGJA Í LÖGREGLUNA SEM GÆTI HJÁLPAÐ TIL VIÐ AÐ FINNA HANA. EF ÞÚ BLANDAR LÖGREGLUNNI OG FJÖLMIÐLUM Í MÁLIÐ SETUR ÞÚ ÞRÝSTING Á OKKUR. OF MIKILL ÞRÝSTINGUR Á OKKUR, VIÐ VELJUM FRELSI YFIR PENINGA. VIÐ MINNKUM ÁHÆTTU VIÐ AÐ DREPA OG LOSUM OKKUR VIÐ LÍKAMA ANNE ELISABETH OG LÁTUM HANN HVERFA.“

Bréfið fimm blaðsíður

Meintir mannræningjar útskýra í kjölfarið að þeir krefjist lausnargjalds, 9 milljóna evra, fyrir konu hans en ræningjarnir biðja um lausnargjaldið í dulritunargjaldmiðli og setja fram áætlun um samskipti í gegnum rafmyntina Bitcoin. Bréfið hafði Hagen meðferðis þegar hann hitti lögreglumenn á bensínstöð 31. október 2018 en um er að ræða fimm A4 blaðsíður sem hann sagðist hafa fundið á heimili sínu þann eftirmiðdag. 

Vegna innihalds bréfsins var málið upphaflega rannsakað leynilega. Tíu vikum síðar kom málið fram á sjónarsvið almennings. 

Börnin sannfærð um sakleysi föður síns

Lögreglan telur að Tom Hagen hafi myrt eiginkonu sína eða komið að morði hennar með einhverjum hætti. Þá telur lögreglan að bréfið sem hér um ræðir sé hluti af því sem lögreglan hefur lýst sem skipulögðu misferli. 

Hagen neitar sök og hefur verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Börn þeirra hjóna segjast sannfærð um sakleysi föður síns og telja að móður sinni hafi verið rænt. 

VG hefur spurt lögregluna út í hótunarbréfið og hefur meðal annars spurt hver hafi skrifað bréfið að mati lögreglu en lögreglan mun ekki bregðast við spurningum VG fyrr en næstkomandi mánudag. Bréfið er aðgengilegt í fullri lengd í frétt VG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert