Loks til hafnar eftir 40 daga á sjó

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Yfir fjögur hundruð flóttamenn fengu að koma að landi á Möltu í gærkvöldi eftir að yfirvöld á eyjunni höfðu synjað þeim um að koma til hafnar í tæpa 40 daga. Áður höfðu yfirvöld tilkynnt um að vegna kórónuveirunnar væru hafnir landsins væru lokaðar og eins væru allar flóttamannamiðstöðvar yfirfullar. 

Alls eru flóttamennirnir 425 talsins og hafði þeim verið bjargað á Miðjarðarhafinu í apríl. Í gærkvöldi sagðist ríkisstjórn Möltu ekki geta borið ábyrgð á aðgerðaleysi annarra ríkja Evrópusambandsins og þar með hætt lífi flóttafólksins og áhafnar ferðamannabátanna. Vísar ríkisstjórnin þar í að önnur ríki ESB hafa verið treg í taumi þegar kemur að því að taka við flóttafólki sem kemur að landi í ríkjum eins og Möltu, Ítalíu, Grikklandi og Spáni. 

„Ekkert ríki Evrópu samþykkti að taka við þessu flóttafólki þrátt fyrir tal um samstöðu,“ segir í tilkynningu frá ríkisstjórn Möltu.

Legið undir ámæli

Heimildir AGI-fréttaveitunnar herma að þessi ákvörðun hafi verið tekin þar sem áhafnir bátanna óttuðust um eigið öryggi en ríkisstjórnin segir að ástandið hafi verið orðið mjög erfitt um borð og það hafi komið til uppþota. 

Bátarnir fengu því að koma til hafnar seint í gærkvöldi og í nótt í Senglea. Ekki liggur fyrir hvert var farið með flóttafólkið.

Malta hefur legið undir ámæli frá mannúðarsamtökum fyrir að halda flóttafólkinu um borð í ferðamannabátum sem alls ekki eru ætlaðir til langdvalar í stað þess að hleypa þeim í land. 

Samtökin Alarm Phone skrifuðu á Facebook í síðasta mánuði að flóttamaður um borð í einum þeirra hafi sagt að tilraun hafi verið gerð til sjálfsvígs um borð, einhverjir væru í hungurverkfalli og eins hafi komið upp sjúkdómar um borð.

Stjórnvöld á Möltu eru afar ósátt við hvað þau fá lítinn stuðning frá nágrannaríkjunum þegar kemur að móttöku flóttafólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert