Lögregla skaut þeldökkan mann til bana í Atlanta

Kveikt var í Wendy´s-staðnum.
Kveikt var í Wendy´s-staðnum. Ljósmynd/Twitter

Erika Shields, lögreglustjóri í Atlanta í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum, hefur stigið til hliðar eftir að lögreglumaður skaut þeldökkan mann til bana á föstudag. Ný bylgja mótmæla gegn rasisma og lögregluofbeldi er hafin í Atlanta vegna málsins.

Fleiri þúsund íbúar Atlanta fylltu götur borgarinnar í gær og kölluðu eftir aðgerðum í kjölfar dauða mannsins sem hét Rayshard Brooks. Mótmælendur lokuðu meðal annars fyrir umferð á þjóðvegi og kveiktu í Wendy‘s-veitingastað, en Brooks var skotinn af lögreglu fyrir utan staðinn.

Búið er að segja lögreglumanninum sem skaut Brooks, Garrett Rolfe, upp störfum og félagi hans hefur verið færður til í starfi á meðan atvikið er rannsakað.

Þeir voru kallaðir til á Wendy‘s-veitingastaðinn á föstudagskvöld vegna Brooks sem var sofandi í bíl sínum sem er sagður hafa hindrað umferð á bílastæðinu fyrir utan staðinn.

Garrett Rolfe til vinstri og félagi hans til hægri. Garrett …
Garrett Rolfe til vinstri og félagi hans til hægri. Garrett Rolfe er til rannsóknar. Samsett mynd

Sagður hafa beint rafbyssu að lögreglumönnum

Þegar þeir komu á vettvang reyndist Brooks vera undir áhrifum áfengis og tilraun var gerð til að handtaka hann. Brooks streittist á móti og í átökunum við lögreglumennina náði hann Taser-rafbyssu af öðrum þeirra og hóf að hlaupa af vettvangi.

Lögreglumennirnir eltu Brooks sem er sagður hafa snúið sér við á hlaupum og beint rafbyssunni að lögreglumönnunum sem náðu að skjóta hann með rafbyssu. Óljóst er hvað gerðist næst en á myndbandsupptöku, sem ekki var beint að átökunum, heyrðust skot stuttu síðar.

Brooks var færður á sjúkrahús þar sem hann fór í aðgerð en hann lést af sárum sínum.

Átökin náðust á myndband en ekki þegar Brooks var skotinn.
Átökin náðust á myndband en ekki þegar Brooks var skotinn. Ljósmynd/Twitter

Engin ástæða til að skjóta hann í bakið

Lögmaður fjölskyldu Brooks segir aðgerðir lögreglumannanna hafa ekki verið í neinu samræmi við hegðun hans. „Í Georgíu-ríki er Taser-byssa ekki banvænt vopn – það segja lögin,“ sagði lögmaðurinn L. Chris Stewart við fjölmiðla.

„Liðsauki barst innan tveggja mínútna. Hann hefði verið umkringdur og ekki náð að flýja. Af hverju þurftu þeir að drepa hann? Lögreglumaðurinn hafði aðra valmöguleika en að skjóta hann í bakið,“ bætti hann við.

Brooks lætur eftir sig fjögur börn en hann hafði haldið upp á fjögurra ára afmæli dóttur sinnar fyrr um daginn. Málið verður rannsakað af yfirvöldum og er þetta 48. málið þar sem þarf að rannsaka skotárás lögreglumanns í Georgíuríki.

Frétt BBC um málið.

Viðkvæmir eru varaðir við meðfylgjandi myndskeiðum. Þar má sjá hluta af átökunum, Brooks á hlaupum undan lögreglumönnunum og þegar hann snýr sér við á hlaupum og virðist beina rafbyssu að Rolfe.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert