Netverjar hæðast að Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vel geta fengið sér vatnsglas.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vel geta fengið sér vatnsglas. AFP

Kosningafundur Donald Trump Bandaríkjaforseta sem fram fór í Tulsa í gær hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum. Þá ekki síst viðbrögð áhorfenda þegar forsetinn fékk sér vatnsglas.

Talsvert færri voru á kosningafundinum en búist var við. Trump fullyrti í vikunni að nærri milljón manns hefði sóst eftir miðum á kosningafundinn en ekki tókst að fylla höllina sem tekur 19 þúsund manns í sæti.

Trump talaði í nærri tvær klukkustundir á fundinum, þar af í tæpar 10 mínútur um viðbrögð fjölmiðla við vatnssopa sem forsetinn fékk sér. Fjölmiðlar vestanhafs fjölluðu um erfiðleika forsetans á blaðamannafundi fyrr í vikunni, þar sem hann virtist eiga erfitt með að fá sér vatnsglas og sömuleiðis ganga af sviðinu að blaðamannafundinum loknum. 

Á fundinum í gær sagði forsetinn fylgjendum sínum að hann kynni svo sannarlega að halda á glasi og það sem meira er, að hann gæti haldið á glasi með annarri hendi. Þessi orð forsetans uppskáru mikinn fögnuð viðstaddra, sem stóðu upp þegar forsetinn fékk sér svo vatnsglas sem hann henti síðan til hliðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert