13 milljónir í þjórfé fyrir að neita að afgreiða

Starfsmaður Starbuck's í San Diego sló í gegn með því …
Starfsmaður Starbuck's í San Diego sló í gegn með því að neita að afgreiða grímulausan viðskiptavin. AFP

Viðskiptavinurinn fór og Lenín Gutierrez, óbreyttur kaffibarþjónn, velti honum ekki neitt sérstaklega fyrir sér í framhaldinu. Það var ekki fyrr en Gutierrez sá mynd af sér í færslu á Facebook þar sem hann var málaður upp sem skúrkur sem honum hætti að lítast á blikuna. 

Umræddur viðskiptavinur, sem var kona á miðjum aldri, hafði birt mynd af Gutierrez og ámælt honum opinberlega fyrir að meina sér að kaupa kaffi. Það gerði kaffibarþjónninn af því að konan neitaði að bera grímu, hegðun sem samræmist hvorki opinberum tilmælum í Kaliforníu né viðmiðum kaffihúsakeðjunnar. 

Með færslunni vakti það eitt fyrir grímulausri konunni að koma höggi á starfsmanninn en það snerist í höndunum á henni og fólk fylkti liði til stuðnings málstað unga mannsins: Að vera með grímu. Stuðningurinn tók síðan á sig áþreifanlega mynd í peningasamskoti sem hófst í kjölfarið og stendur nú í rúmum 93.000 bandaríkjadölum, andvirði þrettán milljóna króna íslenskra.

Eins og má lesa um í grein Spiegel var Gutierrez danskennari fyrir heimsfaraldurinn. „Það er það sem mig langar í raun og veru að gera: Að sýna öðrum hvernig maður dansar og hversu mjög ég dái þá mætu list,“ er haft eftir honum. Fjáröflunina segir hann hafa fært sig einu spori nær drauminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert