Opnað á ferðir frá 15 ríkjum til Evrópu

Tómlegt um að litast á að eitthvað á Orly-flugvelli í …
Tómlegt um að litast á að eitthvað á Orly-flugvelli í París. Farþegum um völlinn gæti fjölgað á næstunni þegar opnað verður á ferðir frá 15 ríkjum til Evrópusambandsins. AFP

Ráðherraráð Evrópusambandsins hefur birt lista yfir 15 ríki, hvaðan ferðamenn verða taldir öruggir frá og með morgundeginum, 1. júlí. Listin byggist á stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu en í frétt New York Times segir að óhjákvæmilega hafi pólitísk sýn ólíkra ríkja haft áhrif á þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar. Ekki verður litið þjóðernis ferðalanga heldur hvaðan þeir ferðast og verður listinn uppfærður á tveggja vikna fresti.

Á listanum eru Alsír, Ástralía, Kanada, Georgía, Japan, Svartfjallaland, Marokkó, Nýja-Sjáland, Rúanda, Serbía, Suður-Kórea, Taíland, Túnis, Úrúgvæ og Kína en tekið er fram að ferðir frá Kína séu háðar því skilyrði að staðfesting berist frá Kína um gagnkvæmni, þ.e. að Evrópubúar geti ferðast til Kína.

Áður hafði því verið lekið í fjölmiðla að mannmörg ríki, sem enn hefur ekki tekist að ná tökum á faraldrinum, væru ekki á listanum, en þar má nefna Bandaríkin, Rússland og Brasilíu.

Listinn yfir ríkin er ekki bindandi fyrir aðildarríki sambandsins en búast má við að aðildarríkin verði undir pressu frá stofnunum sambandsins og hvert frá öðru um að fylgja ráðleggingunum sem samþykktar voru, sem fyrr segir, í ráðherraráði sambandsins en þar eiga ráðherrar allra aðildarríkja aðild. Þá segir í fréttatilkynningu frá ráðherraráðinu að Schengen-ríki utan bandalagsins, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss taki einnig þátt í ráðleggingunum.

Löndin, sem sett voru á listann, uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Fjöldi nýrra kórónuveirutilfella á hverja 100.000 íbúa síðstu 14 daga er svipaður eða lægri en meðaltal ESB
  • Fjöldi nýrra kórónuveirutilfella hefur ekki aukist til muna síðustu 14 daga
  • Viðbrögð ríkis við faraldrinum, þ.m.t. fjöldi tekinna sýna, smitrakning, samstarf við evrópskar heilbrigðisstofnanir o.fl. eru til fyrirmyndar 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert