ESB útnefnir fjórtán „örugg“ lönd

Farþegar á leið frá Amsterdam, höfuðborg Hollands, til Búlgaríu.
Farþegar á leið frá Amsterdam, höfuðborg Hollands, til Búlgaríu. AFP

Evrópusambandið hefur nú útnefnt fjórtán lönd þaðan sem ferðamenn eru taldir „öruggir“ frá og með 1. júlí, þrátt fyrir heimsfaraldur. Bandaríkin, Brasilía og Kína eru ekki þar á meðal.

Ástralía, Kanada, Marokkó og Suður-Kórea eru hins vegar á meðal þeirra sem komast á lista hinna útnefndu landa. BBC greinir frá þessu. 

ESB er tilbúið að hleypa kínverskum ferðamönnum á listann ef kínversk stjórnvöld bjóða upp á gagnkvæman ferðasamning fyrir ferðamenn sem koma frá ESB-löndum. 

Landamæraeftirliti ESB hefur verið aflétt fyrir þau sem ferðast innan sambandsins. Reglur um ferðamenn í Bretlandi falla sérstaklega undir Brexit-samningaviðræðurnar. Ríkisborgarar í Bretlandi eru enn meðhöndlaðir á sama hátt og aðrir frá löndum innan ESB þar til Brexit-aðlögunartímabilinu lýkur 31. desember næstkomandi. Þess vegna eru ríkisborgarar Bretlands og fjölskyldumeðlimir þeirra undanþegnir tímabundnum ferðatakmörkunum. 

Á lista yfir lönd „öruggra“ ferðamanna, eins og hann lítur út í dag, eru Alsír, Ástralía, Kanada, Georgía, Japan, Svartfjallaland, Nýja-Sjáland, Rúanda, Serbía, Suður-Kórea, Taíland, Túnis og Úrúgvæ. Líklegt er að listinn muni eitthvað breytast. 

mbl.is