180 flóttamenn í land á Ítalíu

Flóttamennirnir spila á trommur og fagna ákvörðun ítalskra stjórnvalda um …
Flóttamennirnir spila á trommur og fagna ákvörðun ítalskra stjórnvalda um borð í Ocean Viking. AFP

Ítölsk stjórnvöld hafa leyft 180 flóttamönnum af skipinu Ocean Viking að koma í land. Flóttamönnunum var bjargað af skipinu, sem er fjármagnað af góðgerðarsamtökum, úr Miðjarðarhafinu. 

Skipið hafði verið við höfn í rúma viku, en stjórnvöld höfðu meinað þeim sem um borð voru að koma inn í landið. 

Flóttamennirnir koma meðal annars frá Pakistan, Erítreu og Nígeríu. Þeir flúðu frá Líbýu og var bjargað af Miðjarðarhafinu dagana 25 til 30 júní. 25 þeirra eru börn og flest þeirra eru fylgdarlaus. Tvær konur eru í hópnum, þar af er önnur þeirra ófrísk.

Orðnir örvæntingarfullir

Skipið hafði beðið eftir leyfi fyrir því að hleypa fólkinu frá borði, frá bæði stjórnvöldum á Möltu og á Ítalíu. 

Farþegar um borð voru orðnir örvæntingafullir og samkvæmt BBC höfðu einhverjir hótað sjálfsvígi. 

„Við erum mjög ánægð. Við höfum farið langa leið, Líbýa var helvíti en nú sjáum við að minnsta kosti fyrir endann á þessu. Ég þarf að segja fjölskyldu minni að ég sé enn á lífi,“ segir Rabiul, 27 ára frá Bangladesh. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert