Trump fer mikinn á Twitter eftir dóm Hæstaréttar

Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki sáttur með úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er ekki sáttur með úrskurð Hæstaréttar Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er aldeilis ekki ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna sem úrskurðaði í dag að forsetinn þurfi að afhenda skattaskýrslur sínar til saksóknara New York-ríkis vegna rannsóknar sem saksóknaraembættið stendur fyrir. 

Rannsóknin snýst um það hvort að Trump hafi brotið lög um fjármögnun kosningabaráttu. 

Trump þarf þó ekki að afhenda Bandaríkjaþingi skattaskýrslur sínar og gögn um fjárhag sinn. Var því máli vísað aftur á lægra dómstig til frekari umfjöllunar um atriði er varða skiptingu ríkisvaldsins. 

„Þetta eru pólitískar ofsóknir. Ég vann Mueller nornaveiðarnar, og fleiri og nú þarf ég að halda áfram að berjast í spilltu New York. Ekki sanngjarnt fyrir þessa stjórn!,“ skrifar Trump í einni af fjölmörgum færslum sínum á Twitter í dag. 

Trump beindi spjótum sínum að Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og varaforseta hans Joe Biden. 

Trump sagði stjórn Obama hafa njósnað um framboð sitt en að það hafi ekki haft neinar afleiðingar. „Við grípum hina hliðina að NJÓSNA um framboðið mitt, stærsti pólitíski glæpur og skandall í sögu Bandaríkjanna, og EKKERT GERIST. En þrátt fyrir þetta hef ég gert meira en nokkur annar forseti í sögunni á fyrstu 3 og 1/2 árunum!“ skrifar Trump. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert