Trump þarf að afhenda skattaskýrslur sínar

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að Donald Trump Bandaríkjaforseti þurfi að afhenda skattaskýrslur sínar til saksóknara New York-ríkis í Bandaríkjunum vegna rannsóknar sem saksóknaraembættið stendur fyrir og snýst um það hvort Trump hafi brotið gegn lögum um fjármögnun kosningabaráttu.

Verið er að rannsaka hvort að greiðslur sem fyrrverandi lögmaður Trump, Micheal Cohen, innti af hendi til klámleikkonunnar Stormy Daniels og Playboy fyrirsætunnar Karen McDougal, hafi verið til að koma í veg fyrir að þær greindu frá sambandi sínu við Trump og hafi verið brot gegn áðurnefndum lögum.

Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni og voru sjö dómarar sem voru í meirihluta gegn tveimur sem komust að annarri niðurstöðu.

Forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna skrifaði meirihlutaálitið þar sem segir að forseti Bandaríkjanna sé ekki hafin yfir öll lög. Báðir hæstaréttadómarar sem Trump skipaði, Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh tóku afstöðu með meirihlutanum.

„Fyrir tvö hundruð árum síðan, setti mikilsvirtur dómari það fordæmi að enginn þegn, ekki einu sinni forsetinn, væri hafinn yfir þá almennu skyldu að leggja fram gögn í sakamáli. Í dag staðfestum við þá niðurstöðu á nýjan leik og komumst að þeirri niðurstöðu að forsetinn er hvorki hafinn yfir þá skyldu að þurfa afhenda gögn gegn stefnu í sakamáli né eigi rétt á sérmeðferð,“ skrifaði Roberts í meirihlutaálitinu.

Tilgangur gagnaöflunar saksóknaraembættisins var sá að koma gögnunum fyrir ákærudómstól (e. Grand jury) sem metur líkurnar á því að brot hafi verið framið og tekur ákvörðun hvort ákæra beri fyrir brotið. Það ferli fer fram fyrir luktum dyrum og því ólíklegt að almenningur muni fá að sjá skattaskýrslur forsetans fyrir forsetakosningarnar í nóvember. 

Bandaríkjaþing fær ekki skattaskýrsluna

Í öðrum úrskurði Hæstaréttar, um það hvort Trump þurfi að afhenda Bandaríkjaþingi skattaskýrslur sínar og gögn um fjárhag sinn, komst meirihlutinn að því að því máli yrði vísað aftur niður á lægra dómsstig til frekari umfjöllunar um atriði er varða skiptingu ríkisvaldsins.

Aftur skiptist rétturinn í sjö manna meirihluta og tveggja manna minnihluta og aftur var það forseti Hæstaréttar sem skrifaði meirihlutaálitið.

„Dómstóll á lægra stigi tók ekki nægilega til umfjöllunar þýðingarmikil atriði er varða skiptingu ríkisvalds þegar þing stefnir forsetanum til að leggja fram persónuleg gögn,“ skrifaði Roberts.

Úrskurðurinn er langt frá því að vera fullnaðarsigur fyrir Trump í málinu en það gefur honum að minnsta kosti tækifæri til að koma í veg fyrir að gögnin komi fyrir sjónir þingsins og almennings fyrir forsetakosningarnar í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert