68% með mótefni á einni heilsugæslustöð

AFP

Yfir 68% þeirra sem hafa farið í mótefnamælingu vegna kórónuveirunnar á heilsugæslustöð í Corona í Queens-hverfi í New York hafa reynst með mótefni fyrir veirunni. Á annarri heilsugæslustöð í Jackson Heights, sem er einnig í Queens, er hlutfallið 56%. Íbúar á þessum svæðum eru flestir lágtekjufólk.

Aftur á móti er staðan önnur á heilsugæslu í Cobble Hill, sem er sennilega hvítasta og um leið ríkasta hverfið í Brooklyn þar sem aðeins 13% mældust með mótefni fyrir COVID-19. Þetta kemur fram í frétt í New YorkTimes í gær.

Frá matarmarkaði í Jackson Heights í Queens.
Frá matarmarkaði í Jackson Heights í Queens. AFP

Þegar faraldurinn geisaði í New York kom ýmislegt í ljós. Meðal annars að hverfi þar sem flestir íbúanna eru láglaunafólk, svartir eða af rómönskum uppruna, urðu verst úti en hverfi þar sem íbúarnir eru með hæstu tekjurnar sluppu betur undan veirunni.

Nú, þegar borgin býr sig undir aðra bylgju veirunnar, virðist sem fólk sem ekki býr við allsnægtir eigi eftir að vera í betri stöðu en áður ólíkt þeim sem eru ríkari að því er fram kemur í frétt New YorkTimes sem birtir niðurstöður rannsóknar CityMD.

AFP

„Einhver  samfélög hafa jafnvel myndað hjarðónæmi,“ segir dr. Daniel Frogel, sem er aðstoðarforstjóri rannsóknarsviðs CityMD sem leikur lykilhlutverk í skimun hjá borginni. 

26. júní hafði CityMD skimað um 314 þúsund manns í ýmsum hverfum New York borgar. Í heild eru 26% sýna jákvæð, það er eru með mótefni fyrir COVID-19.

Dr. Frogel segir að niðurstöður skimunar í Jackson Heights og Corona virðist vera á annan veg en víðast hvar annars staðar. 

Frétt NYT í heild

mbl.is