Svör úr sýnatöku á 90 mínútum

Nýju hraðprófin auka verulega afkastagetu breskra stjórnvalda við sýnatöku.
Nýju hraðprófin auka verulega afkastagetu breskra stjórnvalda við sýnatöku. AFP

Tvær nýjar sýnatökuaðferðir verða teknar í gagnið í Bretlandi í næstu viku sem notaðar verða á spítölum, hjúkrunarheimilum og rannsóknarstofum þar sem aðeins tekur um 90 mínútur að fá svar við því hvort þeir sem prófaðir eru séu sýktir af kórónuveirunni eða inflúensu. Þetta kemur frá í fréttatilkynningu á heimasíðu breskra stjórnvalda.

Þar segir að þessi nýju próf muni auka verulega sýnatökugetu heilbrigðiskerfisins þar í landi sem mun hjálpa til við að brjóta upp smitkeðjur snemma í ferlinu.

„Þessi tvö próf munu geta greint bæði COVID-19 sem og árstíðabundnar veirusýkingar, svo sem flensuna eða RSV-sýkingu (e. Respiratory Syncytial Virus),“ segir í tilkynningu en prófin krefjast þess ekki að þjálfaður heilbrigðisstarfsmaður annist þau sem þýðir að hægt er að framkvæma þau á dreifðara svæði.

Jafn næm og önnur próf

Í augnablikinu fá þrír af hverjum fjórum Bretum svar úr sýnatökum sínum innan sólarhrings en fjórðungur innan tveggja daga.

Hægt verður að framkvæma hálfa milljón þessara hraðprófa, sem kallast LamPORE, í næstu viku en fleiri milljónir síðar á árinu.

„Það að þessi próf geti greint bæði flensuna og COVID-19 er afar gagnlegt þar sem veturinn fer að nálgast, og þannig geta sjúklingar gert viðeigandi ráðstafanir til þess að vernda sjálfa sig og aðra,“ er haft eftir Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, í tilkynningunni.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Breta, sýktist af kórónuveirunni í mars.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Breta, sýktist af kórónuveirunni í mars. AFP

Í frétt BBC um málið segir að engar opinberar upplýsingar liggi fyrir um nákvæmni þessara nýju prófa en haft er eftir sir John Bell, prófessor við Oxfordháskóla, að prófin séu jafn næm og þau próf sem Bretar hafa hingað til notast við.

300 þúsund hafa samtals sýkst af kórónuveirunni í Bretlandi, sem er það hæsta í Evrópu.

mbl.is