Óttast að missa stjórn á útbreiðslu veirunnar

Fólk er hvatt til reglubundins handþvottar og grímunotkunar.
Fólk er hvatt til reglubundins handþvottar og grímunotkunar. AFP

Sóttvarnayfirvöld í Frakklandi óttast að missa stjórn á útbreiðslu kórónaveirunnar þar í landi. Í tilkynningu til frönsku ríkisstjórnarinnar segja þarlend sóttvarnayfirvöld að veiran hafi sótt í sig veðrið að undanförnu. Sjúklingum fjölgar á gjörgæslu í fyrsta sinn síðan í apríl og tala látinna í landinu er komin yfir 30.000. 

„Ástandið er viðkvæmt og við gætum á hverri stundu misst stjórn á veirunni líkt og gerðist á Spáni,“ segir í tilkynningunni, en tilfellum kórónuveirunnar á Spáni hefur einnig fjölgað undanfarið. Fram kemur að það sé í höndum íbúa landsins að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá er fólk hvatt til reglubundins handþvottar og grímunotkunar.

Forsætisráðherra Frakklands Jean Castex, hvatti landa sína á mánudag að láta ekki deigan síga í baráttunni við veiruna. Hann sagði að baráttan væri í höndum stofnana og einstakra bæjaryfirvalda, en ekki síður í höndum hvers og eins íbúa landsins. Þúsundir nýrra smita hafa komið upp í Frakklandi seinustu daga og brugðust borgaryfirvöld í borgum víðsvegar um landið við með því að herða enn frekar þær reglur sem fyrir eru í gildi um allt Frakkland. Víða hefur borið á því að fólk virði ekki reglur um grímunotkun og samskiptafjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert