Skila niðurstöðum um smit á 20 sekúndum

Líkamshiti farþega á Heathrow flugvelli í Lundúnum mældur.
Líkamshiti farþega á Heathrow flugvelli í Lundúnum mældur. AFP

Heathrow-flugvöllur í Lundúnum stefnir á að taka upp víðtækar skyndiskimanir fyrir COVID-19 á flugvellinum í þeim tilgangi að liðka fyrir ferðalögum og viðskiptum. Þrjú próf hafa verið rannsökuð í þessum tilgangi og meta tveir breskir háskólar nú niðurstöðurnar. Niðurstöður úr einu prófanna fást á 20 sekúndum. Telegraph greinir frá þessu.

Markmiðið stjórnenda Heathrow er að skipta 14 daga sóttkví við komuna til landsins út fyrir víðtækar skimanir en 78 milljónir ferðast að jafnaði til Bretlands ár hvert. 

Flugvöllurinn vinnur með Oxford-háskóla og Manchester-háskóla að þremur útfærslum á skyndiprófum sem stefnt er að því að allir fari í á flugvellinum, bæði við komuna  til landsins og við brottför. 

Gæti komið ferðalögum aftur af stað

Stjórnendur Heathrow telja að fyrirkomulagið muni auðvelda ferðalög til og frá þeim löndum sem eru á rauðum lista Breta. Þeir sem frá þeim löndum koma þurfa að sæta 14 daga sóttkví við komuna til Bretlands. 

Ísland er ekki á rauðum lista Breta sem stendur en breskir miðlar hafa þó greint frá því að landið nálgist hann hratt vegna nýgengis smita hérlendis. Við landamæri Íslands er skimun en allir sem hingað koma þurfa að fara í tvöfalda skimun með 4-6 daga sótkví á milli ellegar sæta 14 daga sóttkví. Ferðaþjónustan hérlendis hefur gagnrýnt aðgerðir á landamærunum og sagði formaður samtaka ferðaþjónustunnar að það væri búið að loka íslenskri ferðaþjónustu þegar tvöfalda skimunin var tekin upp fyrir alla um miðjan mánuð. 

Niðurstöðum rannsóknar á prófunum mun Heathrow skila til Grants Shapps, samgönguráðherra Bretlands, og Matts Hancocks heilbrigðisráðherra. Þannig reyna stjórnendur flugvallarins að fá stjórnvöld til að skipta sóttkví út fyrir skimun sem gæti komið ferðalögum og viðskiptum aftur af stað. 

„Ef við getum fundið nákvæmt próf sem sýnir niðurstöður innan …
„Ef við getum fundið nákvæmt próf sem sýnir niðurstöður innan nokkurra mínútna, er hagkvæmt og fær grænt ljós frá stjórnvöldum, höfum við möguleika á því að kynna víðtækar skimanir til sögunnar á Heathrow,“ sagði John Holland-Kaye, framkvæmdastjóri Heathrow. AFP

Skimanir líflína fluggeirans

Í það minnsta 30 lönd, þar á meðal Ísland, hafa nú þegar tekið upp skimun á landamærum en breska ríkisstjórnin hefur verið ásökuð um að draga lappirnar í þessu tilliti.

„Skimanir eru líflínan sem fluggeiri Bretlands þarf á að halda til að komast aftur á fætur. Við höfum komið sumum fljótvirkustu prófanna af stað á Heathrow til þess að sjá hvert þeirra muni virka best,“ sagði John Holland-Kaye, framkvæmdastjóri Heathrow, í samtali við Telegraph um málið.

„Ef við getum fundið nákvæmt próf sem sýnir niðurstöður innan nokkurra mínútna, er hagkvæmt og fær grænt ljós frá stjórnvöldum höfum við möguleika á að kynna víðtækar skimanir til sögunnar á Heathrow. Þannig myndi hver einasti farþegi sem ferðast um Heathrow vera öruggur um að flugvöllurinn sé án COVID, eftirspurn myndi aukast og hið alþjóðlega Bretland myndi geta snúið aftur til öruggra viðskipta við heimsbyggðina sem og ferðalaga. Án þess mun fyrsta flokks fluggeirinn hérlendis eiga það á hættu að færast niður um flokk.“

PCR-próf kostar 30.000 en skyndipróf 5.500

Heathrow hefur nú þegar komið á fót skimunarmiðstöð þar sem farþegar gætu greitt 150 pund, eða sem nemur tæpum 30.000 íslenskum krónum, fyrir PCR-próf sem notað er í breska heilbrigðiskerfinu (NHS).

Prófið er ekki bara dýrt heldur tekur einnig sinn tíma að fá niðurstöður úr því eða allt að 48 klukkustundir. Það gæti haft fælandi áhrif á fólk sem vill ferðast um Heathrow. Skyndiprófin gætu kostað einn fimmta af því sem PCR-prófið kostar.

Prófin þrjú sem Heathrow lætur nú á reyna eru misjöfn. Eitt þeirra er próf sem tekið er úr munnkoki. Niðurstöður úr því berast eftir 30 mínútur. Í annað þeirra þarf einungis munnvatn og skilar það niðurstöðum á 10 mínútum. Þriðja prófið er svipað því sem notað er til að prófa fólk fyrir ebólu og geta niðurstöður þess verið tilbúnar á 20 sekúndum. 

250 starfsmenn Heathrow tóku þátt í rannsókn á prófunum sem er líklegt að muni kosta 30 pund eða sem nemur um 5.500 íslenskum krónum. Starfsmennirnir fóru í skyndiprófin og PCR-próf til að meta hvort næmi þeirra væri svipað. Niðurstöður rannsóknarinnar eru nú metnar af fyrrnefndum háskólum áður en þær eru settar í hendur ríkisstjórnarinnar. 

mbl.is