„Búið að loka íslenskri ferðaþjónustu“

Erlendir ferðamenn á ferli í Reykjavík í vor.
Erlendir ferðamenn á ferli í Reykjavík í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er búið að loka íslenskri ferðaþjónustu, það er bara þannig,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar.

Öll þau sem koma hingað til lands fara í skimun á landamærunum frá og með næsta miðvikudegi. Síðan fer fólk í sóttkví og aðra sýnatöku að fjórum til sex dögum liðnum.

Frá miðjum júlí hafa farþegar frá Grænlandi, Færeyjum, Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi sloppið við skimun en sú verður ekki lengur raunin. Þau sem komið hafa frá öðrum löndum en „þeim öruggu“ og ætluðu að dvelja hér í tíu daga eða lengur fóru í heimkomusmitgát og aðra sýnatöku eftir fjögurra til sex daga dvöl.

Ferðamenn við Hallgrímskirkju.
Ferðamenn við Hallgrímskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Reiknar með hrinu afbókana

„Ég get ekki betur séð en að þarna hafi ríkisstjórnin tekið meðvitaða ákvörðun um að fórna þeim efnahagslegu hagsmunum og fleiru sem felst í því að hafa ferðaþjónustuna opna,“ bætir Jóhannes Þór við.

Hann reiknar með hrinu afbókana til landsins „væntanlega á næsta hálftímanum“. „Ferðamenn koma ekki til landsins til að sitja í sóttkví í fjóra daga.“

Jóhannes Þór Skúlason.
Jóhannes Þór Skúlason. mbl.is/Kristinn Magnússon

2-3 þúsund á atvinnuleysisskrá

Jóhannes Þór segir ljóst að þessar hertu aðgerðir muni auka gríðarlega á vanda fjölda fyrirtækja sem höfðu mögulega vonast til að geta nýtt erlendan ferðamannastraum til að geta haldið fólki í vinnu yfir vetrarmánuðina. „Það er ljóst að það er núna horfið. Ég býst við að þetta muni auka töluvert á uppsagnir núna,“ greinir hann frá og telur að tvö til þrjú þúsund manns gætu bæst á atvinnuleysisskrá nokkrum mánuðum fyrr en ella. „Mér sýnist þetta fara hratt upp í 1.500 manns og það þarf ekki mikið til að það fari töluvert hærra. Það er ekki til neins fyrir fyrirtæki að hafa opið ef það er enga ferðamenn að hafa.“

Ferðamenn á Bæjarins beztu.
Ferðamenn á Bæjarins beztu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eingöngu sóttvarnasjónarmið ráða ferð

Spurður hvort ákvörðun stjórnvalda hafi komið honum á óvart kveðst hann ekki hafa búist við því að þau myndu ganga svona langt. Hann vonaðist til þess að hægt væri að samþætta mismunandi sjónarmið betur. „En það er ljóst að hér ráða eingöngu sóttvarnasjónamið.“

Næsta skref Samtaka ferðaþjónustunnar verður að skoða með hvaða hætti þau geta unnið úr stöðunni með stjórnvöldum.

mbl.is

Bloggað um fréttina