„Það vill mig enginn“

CHANTAL VALERY

Er hægt að fyrirgefa þeim sem myrðir ástvin manns? Þessari spurningu er varpað fram í nýlegri umfjöllun The Atlantic og The Marshall Project þar sem fjallað er um réttarkerfið í Flórída. 

12. september 2018 biðu fimm uppkomin börn Deborah (hér eftir nefnd Debbie) Liles á skrifstofu saksóknara í Jacksonville í Flórída, eftir því að hitta mann sem hafði barið móður þeirra til bana með golfkylfu ári áður. 

Michelle, 38 ára, var með skýrslu lögreglu varðandi morðið með sér. „Hefur þú séð myndir af vettvangi glæpsins þar sem heili mömmu sést leka á eldhúsgólfið?“ langaði hana að spyrja. „Því við höfum gert það og þú ættir líka að gera það.“

Dana, 42 ára, var með veggspjald með mynd af eldflaug sem hún ætlar sér að sýna manninum sem þau eru að fara að hitta. Á bakhlið spjaldsins hafði Debbie skrifað til sonar Dana, sem var mjög einmana barn: „Þessi mynd fær mig til þess að hugsa til þín, eldflaugaskot upp til Guðs.“

Gerald, 34 ára, sat ásamt systkinum sínum í herberginu og velti fyrir sér upplýsingunum sem komu fram í gögnum saksóknara. Um barnæsku glæpamannsins. Ítrekað skilinn eftir matarlaus einn heima dögum saman sem smábarn. Fjögurra ára fannst hann ráfandi um á hraðbraut. Systkini létust í eldsvoða. Beittur kynferðisofbeldi, hýddur með rafmagnssnúru. Komið fyrir á þriðja tug fósturheimila og reyndi sjálfsvíg 13 ára gamall. Ástæðan að eigin sögn: „Það vill mig enginn.“

Grein Marshall Project

Líf þitt skiptir máli

Gerald vonaðist til að hægt væri að veita morðingjanum möguleika á að snúa til betri vegar. „Líf þitt skiptir máli,“ ætlaði Gerald að segja við hann. Systkini hans, Rachel, 43 ára og Rockey, 26 ára, bættust fljótlega í hópinn ásamt föður þeirra, Mike.

Þetta var þungbær stund fyrir Mike og hann átti erfitt með gang í átt að herberginu þar sem hann ætlaði að standa augliti til auglitis manninn sem drap eiginkonu hans til rúmlega 40 ára á hrottalegan hátt á heimili þeirra. Mike var með Biblíuna með sér. Bók sem var orðin snjáð af miklum lestri. Hann ætlaði að lesa upp úr Biblíunni fyrir morðingja Debbie. En það sem Mike þráði voru svör. Því þrátt fyrir rannsókn lögreglu var mörgum spurningum enn ósvarað. Varstu einn að verki? Reyndi Debbie að forða sér? Hvers vegna við?

Adam Lawson og Deborah Liles.
Adam Lawson og Deborah Liles.

Sakborningurinn hafði gengist við kröfu fjölskyldunnar um að svara spurningum hennar og játa sök. Þess í stað yrði hann ekki dæmdur til dauða heldur fengi hann lífstíðardóm. En aðeins ef Liles-fjölskyldan væri sátt við svör hans og teldi að hann hefði sagt sannleikann. Samkomulagið var lagt fram af hálfu nýkjörins saksóknara í Flórída og markaði tímamót í saksókn í morðmálum í Bandaríkjunum þar sem stutt var síðan morðið var framið. Áður hafði aðeins verið gert samkomulag í tveimur öðrum morðmálum og í þeim tilvikum var lengra liðið frá glæpnum.

Eli Hager, blaðamaður hjá The Marshall Project, vann að greininni í tvö ár áður en hún birtist en þar er meðal annars fjallað um þær breytingar sem hafa orðið í Jacksonville eftir að Melissa W.Nelson tók við embætti saksóknara í janúar 2017. 

Þegar Angela Corey gegndi embætti saksóknara (2009-2016) voru hundruð barna, flest svört, sótt til saka sem fullorðin og fleiri dæmdir til dauða heldur en í nánast öllum  lögsagnarumdæmum Bandaríkjanna. Í ágúst 2016 birti vefritið The Nation grein undir fyrirsögninni Er Angela Corey miskunnarlausasti saksóknari Bandaríkjanna? Þar var fjallað um ákvörðun embættisins um að ákæra 12 ára gamlan dreng fyrir manndráp af ásetningi (first-degree murder).

Í kosningunum 2016 var Melissa Nelson kjörin saksóknari í hennar stað. Nelson, sem er repúblikani líkt og forveri hennar í embætti, hét því í kosningabaráttunni að beita framsækinni saksókn og feta svipaða leið og gert er víðar í Bandaríkjunum þar sem betrun er höfð að leiðarljósi.

Nelson styður dauðarefsingar og fangelsun þeirra sem fremja alvarlega glæpi. Aftur á móti telur hún ekki rétt að sama refsing eigi við um alla. Til að mynda ef þrjú börn stela brauði en ástæðan á bak við getur verið ólík. Eitt þeirra stelur því að áeggjan annarra, annað vegna þess að það er svangt og það þriðja ánægjunnar vegna. 

Melissa Nelson, saksóknari í Jacksonville í Flórída.
Melissa Nelson, saksóknari í Jacksonville í Flórída. Af stjórnsýsluvef Flórída

Eitt af málunum sem Nelson tók við af Corey var morðið á Shelby Farah árið 2013. Shelby Farah var tvítug stúlka af arabískum uppruna sem var skotin til bana í vopnuðu ráni í farsímaverslun sem hún starfaði í. Það tók lögreglu aðeins nokkra daga að handtaka 21 árs gamlan svartan mann, James Rhodes, fyrir morðið en réttarhöldin frestuðust árum saman á sama tíma og Corey krafðist dauðadóms yfir Rhodes þrátt fyrir andmæli móður Farah, Darlene.

Í fyrstu hafði Darlene Farah viljað lauma byssu inn í réttarsalinn og drepa Rhodes. Hún veit sem er að mál þar sem dauðarefsing á í hlut velkjast oft um í réttarkerfinu árum saman, þau sundra fjölskyldum og veita sjaldan sálarró. En eftir að fyrrverandi alríkislögreglumaður, sem hún réð til starfa til þess að rannsaka fortíð Rhodes, upplýsti hana um ýmislegt úr lífshlaupi hans komst hún að þeirri niðurstöðu að dauðarefsing væri ekki lausnin. Því hann væri ekki síður fórnarlamb.

Shelby Farah.
Shelby Farah. Af Facebook

Amma Rhodes tók hann til sín þegar hann var smábarn og móðir hans stakk hann af og faðir hans var ítrekað dæmdur í fangelsi. Bílstjórinn sem keyrði Rhodes á dagheimilið minntist þess að Rhodes hafi oft grátið úr hungri í bílnum hjá honum og á félagsmiðstöð þar sem hann dvaldi oft í barnæsku var hann beittur kynferðislegu ofbeldi af hálfu annars drengs sem og ráðgjafa.

Farah reyndi ítrekað að fá heimild Corey saksóknara til að hitta Rhodes að máli en fékk ávallt synjun. Þegar Nelson tók við starfi saksóknara féll hún frá kröfu um dauðarefsingu og heimilaði Farah og fjölskyldu hennar að hitta Rhodes.

Frétt New York Times

Á fundinum bað Farah Rhodes að lýsa útliti dóttur hennar og hann gerði það og Farah lýsti mannkostum dóttur sinnar. Rhodes sagði Farah að eina ósk hans í lífinu hafi verið að eignast fjölskyldu eins og þeirra. Ef svo hefði verið efaðist hann um að væri morðingi í dag. 

James Rhodes í réttarsalnum.
James Rhodes í réttarsalnum. Skjáskot af YouTube

Undanfarin ár hefur Farah unnið með ungmennum sem minna hana á Rhodes og barnæsku hans. Rhodes skrifaði blaðamanni Marshall Project að samtalið við Farah og að hún hafi viljað fyrirgefa honum ódæðisverkið hafi snert hann svo mikið að hann hafi ákveðið að gerast leiðbeinandi ungra manna í fangelsinu þar sem hann mun afplána það sem eftir lifir ævinnar. Að hjálpa öðrum sem eru í þörf.

Deborah og Michael Liles gengu í hjónaband árið 1975 en þau höfðu verið par frá því í menntaskóla. Um miðjan níunda áratuginn keypti fjölskyldan hús sem var nefnt kastalinn af nágrönnum. Þegar börnin uxu úr grasi fór Debbie að starfa sem tónlistarkennari í almenna skólakerfinu. 

Jacksonville er líkt og mörgum þéttbýlisstöðum í Bandaríkjunum skipt upp eftir kynþáttum og húsið sem fjölskyldan bjó í var á sínum tíma „hvítt hverfi“ en þegar þau fluttu inn voru flestir íbúanna svartir. 

Liles-fjölskyldan.
Liles-fjölskyldan. Skjáskot af Facebook

Hverfið er í norðurhluta Jacksonville þar sem flestir íbúarnir eru fátækir og hið opinbera hefur lagt litla áherslu á að fjárfesta í skólum og velferðarþjónustu. Á sama tíma jókst glæpatíðni í hverfinu og árið 1993 þegar Debbie var ein heima var bankað upp á hjá henni. Fyrir utan stóð maður sem spurði hvort hann gæti fengið að vinna í garðinum. Debbie sagði að eiginmaður hennar gæti örugglega aðstoðað hann þar sem hann starfaði við vinnumiðlun. En það skipti engum togum, maðurinn réðst inn og barði hana. Hún lét hann fá 50 Bandaríkjadali, giftingarhringinn og bíllyklana.  Hann batt hana og skildi hana eftir. Þegar lögregla kom á vettvang fann hún Debbie liggjandi í blóði sínu. 

Debbie jafnaði sig en innbrotið hafði veruleg áhrif á fjölskylduna og trú hennar á kristilegri fyrirgefningu bar álitshnekki. Hún og Mike sögðu í viðtali að árásarmaðurinn, Curtis Head, sem var svartur og með langan brotaferil að baki, ætti að dúsa á bak við lás og slá það sem eftir væri ævinnar. Mike gekk til liðs við samtök sem berjast fyrir hertum refsingum og var virkur í samtökunum.

Þrátt fyrir árásina ákvað Liles-fjölskyldan að búa áfram í húsinu og skipti þar engu að ítrekað var brotist inn hjá þeim og ýmsu stolið, jafnvel garðskála í heilu lagi. 

Meira en tveimur áratugum eftir fyrstu árásina, að morgni 23. mars 2017, var Debbie ein heima þegar Adam Christopher Lawson Jr., 24 ára að aldri, kom að húsinu og kannaði hvort einhvers staðar væri hægt að komast inn um opinn glugga. Hann hafði nýlokið afplánað sex ára dóm fyrir innbrot og bjó í hjólhýsagarði skammt frá. 

Adam Christopher Lawson.
Adam Christopher Lawson. Jacksonville

Hann hafði gengið í gegnum ýmislegt á sinni stuttu ævi. Hann var smástrákur þegar hann neytti fíkniefna sem mamma hans hafði skilið eftir en hún var ítrekað dæmd í fangelsi fyrir fíkniefnabrot. Sem unglingur fjármagnaði hann neysluna með innbrotum og þjófnuðum og var einu sinni lagður inn á sjúkrahús vegna ofskömmtunar.

Lawson fann sér leið inn í húsið og reyndi að fela sig þegar hann sá Debbie en hún varð vör við hann. Hann lýsti því síðar á þann veg að hún hafi gripið golfkylfu sem hann hafi þrifið af henni og elt hana inn í eldhús. Þar barði hann Debbie með kylfunni þangað til hann höfuðkúpubraut hana. Lawson stal öllu á milli himins og jarðar í húsinu og hlóð góssinu inn í Buick-bíl fjölskyldunnar, svo sem tveimur sjónvarpstækjum, fartölvum, mat og fleira.

Nokkrum tímum síðar kom Mike heim í hádeginu og tók eftir að bíllinn var horfinn og frystirinn í bílskúrnum stóð galopinn. Þegar hann kom inn var golfkylfan það fyrsta sem mætti honum og blóðslettur um allt. 

Rækja sem ber ábyrgð á að ég er ekkill í dag

Gerald var að tala við nemanda í síma þegar hann hlustaði á talskilaboðin frá föður sínum sem sagði aðeins: Sonur – Þeir náðu henni í þetta skiptið. 

Um kvöldið höfðu öll fimm börn Liles-hjónanna náð á heimili fjölskyldunnar þar sem þau horfðu á lík móður þeirra borið út í líkpoka. Snemma morguninn eftir ætluðu þau aftur inn á bernskuheimilið en var synjað inngöngu þar sem tæknideild lögreglunnar var að störfum í húsinu. 

Systkinin vildu aðstoða lögreglu við leitina að morðingja Debbie og fóru á milli fyrirtækja og kirkja í nágrenninu þar sem þau fengu að skoða efni úr öryggismyndavélum í þeirri von að rekast á Buick-bifreið foreldranna sem morðinginn hafði stolið. Með þeirra aðstoð tókst að púsla saman myndskeiði þar sem Buick-bifreiðinni sést ekið inn á bílastæði hjólhýsagarðsins þar sem Lawson bjó. Með myndskeiðið í farteskinu sem og fleiri upplýsingar gat lögreglan handtekið Lawson einni og hálfri viku eftir morðið. 

AFP

Þegar Lawson kom fyrir dómara í fyrsta skiptið var Liles-fjölskyldan mætt snemma í réttarsalinn. Þegar Lawson kom inn í salinn urðu þau öll undrandi. Því það kom þeim á óvart hversu lágvaxinn og góðlegur hann var. „Ég átti von á skælbrosandi skepnu,“ sagði Mike við Gerald. „Það er óþægilegt að sjá að þessi smárækja ber ábyrgð á að ég er ekkill í dag.“

Eftir að dómari hafði farið yfir réttindi Lawson hljóp Michelle út úr réttarsalnum og kastaði upp. Öll fjölskyldan, að Rockey undanskildum, vildi að Lawson yrði dæmdur til dauða. Rockey er alfarið á móti dauðarefsingum og morðið á móður hans breytti ekki þeirri afstöðu. Enn í dag er Gerald sannfærður um réttmæti dauðarefsinga í ákveðnum málum. Annars hafa þau öll skipt um skoðun. Eftir að hafa setið dögum saman svo mánuðum skipti í réttarsalnum þar sem tekist var á um ýmis atriði svo sem hvort Lawson væri sakhæfur. 

Fjölskyldan hitti saksóknara reglulega á fundum sem er meira aðgengi en flest fórnarlömb saknæms athæfis fá. Stundum leið þeim eins og upplýsingaflæðið væri of mikið til að mynda þegar þau hittu einn úr hópi saksóknara á göngum dómshússins sem tjáði þeim að það væri ekki nóg með að Debbie hafi verið barin til bana heldur bæri hún greinileg merki kyrkingar. Réttarmeinafræðingur mat það svo út frá því að allar æðar í augum hennar hefðu sprungið. Morðið hafi verið einstaklega viðbjóðslegt og grimmilegt þannig að auðveldlega væri hægt að fara fram á dauðarefsingu yfir morðingjanum. 

AFP

Sumarið 2018 tjáði Lawson lögmanni sínum að hann væri reiðubúinn til að játa sök ef fallið yrði frá beiðni um dauðarefsingu af hálfu saksóknara. Á fundi með saksóknara sagði Mike að hann væri reiðubúinn til þess að skoða tilboð Lawsons gegn því að fjölskyldan megi hitta hann fyrst.

Nelson sagði við Liles fjölskylduna að hún væri reiðubúin til að skoða það enda hefði hún góða reynslu af því í tveimur morðmálum. 

Ný tækni leiddi til handtöku

Þar á meðal var fjölskylda Freddie Farah en hann var skotinn til bana í matvöruverslun sinni í Jacksonville árið 1974. Áratugum saman var morðið óleyst morðgáta, það eina sem lögreglan hafði í höndunum voru fingraför á pakka með kökudufti, krukku með kökukremi og gosdós sem hafði verið skilin eftir við afgreiðsluborðið. 

Árið 2016 tókst með nýrri og bættri tækni að tengja fingraförin við mann sem bjó í New Orleans. Johnie Lewis Miller, sem er einnig þekktur undir listamannsnafninu Louie frændi. Götulistamaður sem hafði í áratugi haft atvinnu af því að standa eins og myndastytta með hatt og bindi með bandaríska fánanum á götuhorni í franska hverfi borgarinnar. 

Johnnie Lewis Miller og Freddie Farah.
Johnnie Lewis Miller og Freddie Farah. Skjáskot af Twitter

Miller, sem var orðinn 63 ára gamall, var framseldur til Flórída þar sem hann var ákærður fyrir morð. En þegar eina vitnið að morðinu lést voru litlar líkur á sakfellingu. Níu mánuðum áður hafði máli Shelby Farah lokið á farsælan hátt og Nelson ákvað að reyna aftur. Hún lagði til að Miller myndi játa á sig morðið og svara öllum þeim spurningum sem fjölskylda Freddie Farah hefði fram að færa gegn því að Nelson yrði ekki dæmdur í fangelsi. Nelson samþykkti og fundi var komið á 20. apríl 2018.

Málmhlutur sem breytti lífinu til frambúðar

Þegar morðingi föður Bobby Farah gekk inn í herbergið setti Bobby höndina í vasann og dró upp byssukúlu og leit í augu Johnie Lewis Miller sem hafði skotið Freddie Farah til bana fyrir áratugum síðan og sagði: „Þessi litli málmhlutur breytti lífi okkar til frambúðar.“ 

Nelson segir að það eina sem hafi komið upp í hugann var hugsunin um að Bobby væri vopnaður. En Bobby vildi bara fá upplýsingar frá Miller um þennan dag sem breytti lífi fjölskyldunnar til frambúðar. 

Miller greindi þeim frá því að hann hefði alist upp við mikla fátækt og þegar hann var 17 ára hefði hann fundið byssu í hverfinu. Hann fór inn í búðina hjá Freddie og tilkynnti að um vopnað rán væri að ræða. Freddie reyndi að verja stúlkuna sem vann á kassanum, sem var eina vitnið að morðinu, en við þetta brá Miller og hleypti af byssunni með þeim afleiðingum að Bobbie lést. Miller þekkti Freddie að góðu einu saman. Hann hafði oft gefið Miller sælgæti og reynst honum vel alla tíð. Ekkja Freddie, Nadya, komst við þegar Miller lýsti aðstæðum sínum á þessum tíma og ákvað að fyrirgefa honum. 

Viku síðar hittust þau aftur í réttarsalnum þar sem Miller játaði sök og var dæmdur til afplánunar í jafn marga daga og hann hafði þegar setið inni eftir framsalið, 344 daga. Hann muldraði takk fyrir og sneri aftur til New Orleans þar sem hann kemur enn fram sem Louie frændi. Að minnsta kosti þegar kórónuveirufaraldurinn kemur ekki í veg fyrir það. 

Þegar blaðamaðurinn fór að hitta Miller fylgdist hann með Miller bregða á leik með börnum og hvort heldur sem það voru börn eða fullorðnir virtust allir þekkja hann og heilsa honum glaðlega.

Miller sagði að í upphafi hefði hann samþykkt að hitta Farah-fjölskylduna í þeim eina tilgangi að losna undan fangelsisvist. En að hafa getað veitt þeim það sem þau höfðu beðið um – upplýsingar – veitti honum einnig hugarró.

„Það fá ekki allir það tækifæri í lífinu,“ segir Miller og bætir við að hann hafi undanfarna áratugi reynt að gleyma og nánast tekist það. „Ég reyni að upplifa gleði og gleðja aðra. Það er mín leið til þess að muna.“

Fyrir Nelson var samkomulagið sönnun á því að rétt sé að láta gerendur og þolendur hittast og reyna að ná sátt í sakamálum, jafnvel morðmálum.  Eða eins og Bobby segir þá skiptir svo miklu máli að gerandinn viðurkenni hvað hann hafi gert og að hann iðrist. 

Ég fyrirgef þér– ég get ekki

Þegar dagurinn sem Liles-fjölskyldan átti að hitta morðingja Debbie í september 2018 fylltust þau eftirvæntingu og von. Gerald skrifaði Lawson bréf sem var lesið fyrir hann í fangelsinu nokkrum dögum fyrir fundinn. „Ég skrifa þér til þess að segja að ég fyrirgef þér. Engu skiptir hvað þú hefur gert eða munt gera, Guð mun geta náð fram góðverkum í gegnum þig.“

Skömmu áður en Lawson hitti fjölskylduna sat hann í járnum með vopnaða verði allt í kring. Hann hélt höndunum utan um höfuðið og fætur hans skulfu. Síðan heyrist hann muldra: „Ég geti ekki, ég get ekki. Eftir allt sem ég hef tekið frá þeim, ég get ekki...“ 

Lögmenn Lawson reyndu að fá hann til að skipta um skoðun: „Skilurðu að þetta er það eina sem fjölskyldan biður um?“ sögðu þeir. „Skilur þú að þú ert að senda þeim risastórt fokkmerki.“ En Lawson hætti ekki að muldra þessi þýðingarmiklu orð: „Ég get ekki.“

Þá reyndi Miller að hvetja Lawson til dáða með því að segja honum hversu vel hefði farið í fyrri málum. „Með fullri virðingu,“ svaraði Lawson. „Ég get það bara ekki.“

Eftir að hafa reynt að tala Lawson til í rúman klukkutíma fór Nelson til fjölskyldunnar og sagði þeim hver staðan væri. „Mér þykir það leitt en hann ætlar ekki að gera það. Hann neitar.“

Fjölskyldan starði orðlaus á hana. Þau höfðu undirbúið sig á allan mögulegan hátt en enginn hafði átt von á þessu. „Ég held að það hafi verið bréf Geralds, segir Pam Hazel, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara. Lawson hafi talið að fjölskyldan væri full reiði og miskunn væri ekki í boði. 

Gat framið hrottalegt morð en ekki hitt þau

„Ef hann getur ekki tekið fyrirgefningu þá getið þið sagt honum að við fyrirgefum honum ekki,“ sagði Dana. Faðir hennar bað saksóknara um að reyna að fá Lawson til að taka þátt í fundinum en á sama tíma settist fjölskyldan niður og fór yfir stöðuna. Þau gætu lagt til réttarhöld þar sem farið yrði fram á dauðarefsingu og væntanlega yrði það niðurstaðan. En þá myndi Lawson væntanlega áfrýja og það tæki áratugi þangað til aftakan færi fram. Það sem eftir lifði ævinnar þyrftu þau að takast á við að manneskja yrði tekin af lífi.

Það sem vakti mesta furðu hjá Liles-fjölskyldunni var að þessi maður gæti framið hrottalegt morð á meðan hann gæti ekki sest niður með þeim. En samviskubit Lawson var það mikið að hann treysti sér einfaldlega ekki til að horfast í augu við verknaðinn og áhrif hans á fjölskylduna. 

Lést úr harmi

Næstu dagar á eftir voru erfiðir, ekki síst hjá Mike. Hann gat ekki sofið og ef hann heyrði minnsta þrusk greip hann byssu fullviss um að innbrotsþjóf væri að ræða. 

Nokkrum vikum síðar fannst Mike látinn á eldhúsgólfinu. Réttarmeinafræðingur gaf út dánarorsökina: Lést úr harmi. En Michelle dóttir hans er á annarri skoðun, það var uppbyggileg réttvísi sem drap pabba, sagði hún við blaðmann Marshall Project. 

Nú tveimur árum síðar hefur Melissa Nelson ekki enn áttað sig á því hvað það var sem misfórst í málinu og hún hefur ekki boðið upp á þennan möguleika í morðmáli aftur.

Réttað var yfir Adam Lawson í febrúar í fyrra. Þar játaði hann að hafa myrt Deborah Liles tveimur árum fyrr líkt og hann hafði komist að samkomulagi um við saksóknara gegn því að vera ekki tekinn af lífi. Lawson var dæmdur í lífstíðarfangelsi. 

AFP

Við réttarhöldin fengu börn Deborah að tjá sig og sat Lawson skjálfandi og nötrandi án þess að líta upp þegar systkinin lýstu því þegar Lawson braust inn á heimili foreldra þeirra og barði móður þeirra til bana með golfkylfu og steikingarpönnu.

„Hversu hentugt er það að hann þarf ekki að horfa upp á hvað hann gerði annarri manneskju. Hann drap ekki bara mömmu mína. Hann slátraði henni. Hann eyddi henni,“ sagði Michelle McFatter við réttarhöldin. Hún segir að þau hafi sýnt miskunn með því að samþykkja að hann fengi tvöfaldan lífstíðardóm enda hefði hann aldrei verið tekinn af lífi með sambærilegum hætti og hann drap móður þeirra. Þau vonast til þess að Lawson verði að mestu haldið í einangrun í fangelsinu það sem eftir lifir ævinnar. 

Umfjöllun ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert