Líkir þróun smita við úlfalda

Michael Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, á þingfundi í dag.
Michael Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, á þingfundi í dag. AFP

Breska ríkisstjórnin kynnti í dag hertar aðgerðir gegn kórónuveirunni fyrir norðausturhluta Englands, í kjölfar bylgju kórónuveirusmita á svæðinu.

Aðgerðirnar felast í því að frá og með föstudegi mega íbúar norðausturhluta Englands ekki eiga í samneyti við einstaklinga sem deila ekki með þeim heimilishaldi eða stuðningsbúbblu.

Þá þurfa veitingastaðir og krár að loka klukkan 22.00 og mega aðeins bjóða upp á borðþjónustu.

Heilbrigðisráðherra Bretlands, Matt Hancock, tilkynnti nýju reglurnar á þingfundi í dag.

„Þessar aðgerðir eru okkur ekki léttvægar,“ sagði Hancock, og viðurkenndi að aðgerðirnar myndu hafa töluverð áhrif á samfélög á svæðinu.

„Við verðum að fylgja gögnunum og bregðast við, og núna segja gögnin að við verðum að bregðast við.“

Boris Johnson.
Boris Johnson. AFP

Síðasta mánudag tóku gildi hertar reglur á Englandi, þar sem ekki fleiri en sex mega koma saman utan vinnu eða skóla.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við dagblaðið The Sun í dag að fólk verði að fara eftir nýju reglunum til að „stöðva hnúðinn“ en Johnson líkti þróuninni á smitum þar í landi við hnúð á úlfalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert