Boris íhugar að herða aðgerðir

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í heimsókn sinni …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í heimsókn sinni á Jenner-stofnunina í Oxford í gær. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ætlar að taka sér helgina í að íhuga hvort tilefni sé til að herða samkomutakmarkanir og aðrar aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu kórónuveirunnar í annarri bylgju faraldursins í Bretlandi.

4.422 ný smit greindust í Bretlandi síðastliðinn sólarhring og er það í fyrsta skipti síðan 8. mars sem fjöldi nýrra smita fer yfir fjögur þúsund. Þá létu 27 lífið vegna COVID-19 sl. sólarhring. BBC greinir frá. 

Yfirvöld eru sögð vera með það til skoðunar að skylda fjölskyldur til að takmarka umgengni við aðrar fjölskyldur og að loka skemmtistöðum fyrr á kvöldin. Um 13,5 milljónir í Bretlandi búa nú þegar við einhvers konar takmarkanir borga eða sveitarfélaga.

Prófessor Neil Ferguson, fyrrverandi ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir að frekari aðgerða sé þörf „fyrr en seinna“. Ferguson er sagður vera sá sem sannfærði stjórnvöld um nauðsyn þess að setja á útgöngubann í mars og óttast að útbreiðslan verði fljótlega sú sama og þá ef ekki verður gripið í taumanna.

Johnson hefur þó aðeins völdin til að setja á takmarkanir á Englandi en stjórnvöldum í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi er í sjálfsvald sett hvernig þau haga sínum aðgerðum.

mbl.is