Hver tekur við og hvenær?

Margir minnast nú hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg sem lést af …
Margir minnast nú hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg sem lést af völdum krabbmeins, 87 ára að aldri, í gær. Hér sést mynd af Ginsburg í glugga verslunar í New York. AFP

Stjórnmálamenn og fréttaskýrendur í Bandaríkjunum ræða nú hver eigi að taka sæti við Hæstarétt Bandaríkjanna eftir að greint var frá andláti Ruth Bader Ginsburg í gær. Trump Bandaríkjaforseti gæti tryggt að íhaldssamir dómarar yrðu í meirihluta við réttinn næstu áratugina, en Ginsburg var einn frjálslyndasti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna. 

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segir að Trump eigi ekki rétt á því að útnefna arftaka Ginsburg þegar svo skammt er þar til Bandaríkjamenn munu kjósa sér nýjan forseta, en forsetakosningarnar fara fram 3. nóvember. Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, hefur aftur á móti sagt að hann vilji halda atkvæðagreiðslu um hver eigi að vera arftaki Ginsburg. 

Trump hefur í forsetatíð sinni útnefnt tvo íhaldssama dómara við hæstarétt, þá Neil Gorsuch, sem er 53 ára, og Brett Kavanaugh, 55 ára.

Fjölmenni safnaðist saman við Hæstarétt Bandaríkjanna í gær til að …
Fjölmenni safnaðist saman við Hæstarétt Bandaríkjanna í gær til að minnast Ginsburg. AFP

Dómarar geta látið af störfum eftir sjötugt, en það heyrir til undantekninga. Flestir starfa til æviloka. Ginsburg, sem var 87 ára gömul, var elsti starfandi dómarinn í hæstarétti.

Frjálslyndir dómarar sem eiga nú sæti í réttinum eru þær Sonia Sotomayor, sem er 66 ára, og  Elena Kagan, sem er sextug, báðar útnefndar af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Stephen Breyer, sem 82 ára.

Fyrir utan þá Gorsuch og Kavanaugh teljast þau John Roberts, sem er 65 ára og forseti hæstaréttar, Samuel Alito, sem er sjötugur, og Clarence Thomas, 72 ára, til íhaldssamra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Thomas, sem er eini svarti dómarinn í hæstarétti, er þekktur fyrir að taka nánast aldrei til máls þegar munnlegur málflutningur fer fram við dóminn. 

Það sama gildir um hæstaréttardómara og á við alla opinbera embættismenn og bandaríska forseta, að hægt er að kæra þá fyrir embættisafglöp og þannig koma þeim frá völdum, gerist þeir t.d. sekir um landráð, spillingu eða aðra alvarlega glæpi, en þetta hefur aftur á móti aldrei gerst í sögu dómstólsins. 

Frá því að dómstóllinn var fyrst settur á laggirnar hefur nýr dómari verið útnefndur af forseta Bandaríkjanna um það bil annað hvert ár, og dómararnir hafa að meðaltali starfað við hæstarétt í um 15 ár. 

Trump Bandaríkjaforseti sagði að Ginsburg hefði verið mögnuð kona og …
Trump Bandaríkjaforseti sagði að Ginsburg hefði verið mögnuð kona og stórmenni á sviði laga og réttar. Hún hafi verið bráðskörp, haft mikil áhrif og tekið sögulegar ákvarðanir í Hæstarétti Bandaríkjanna. AFP

Sumir hafa aftur á móti starfað mun lengur. Anthony Kennedy, sem lét af störfum 2018, var útnefndur af Ronald Reagan árið 1987 og tók formlega við sem dómari við hæstarétt ári síðar. 

Bill Clinton útnefndi Ginsburg árið 1993, og hún starfaði því sem dómari við hæstarétt í 27 ár.

Joe Biden, forsetaefni Demókrata, segir að næsti forseti Bandaríkjanna eigi …
Joe Biden, forsetaefni Demókrata, segir að næsti forseti Bandaríkjanna eigi að útnefna arftaka Ginsburg. Það eigi ekki að gerast fyrir kosningarnar 3. nóvember. AFP

Trump Bandaríkjaforseti var í gær spurður út í fráfall Ginsburg, en hann heyrði það fyrst frá fréttamönnum, en forsetinn er nú á kosningaferðalagi. Hann sagði að hún hefði verið stórmenni á sviði laga og réttar.

„Skoðanir hennar, á meðal þeirra vel þekktar ákvarðanir er varða lagaleg réttindi og jafnrétti kvenna og fatlaðra, hafa haft áhrif á alla Bandaríkjamenn, og margar kynslóðir lögfróðra manna.“

„Hvort sem þú varst sammála henni eður ei, þá var hún ótrúleg kona sem lifði mögnuðu lífi,“ sagði Trump og bætti við að sér hefði þótt leitt að heyra af andláti Ginsburg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert