Bareigandi grunaður um manndráp í mótmælum fallinn

Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.
Frá mótmælum gegn lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. AFP

Eigandi bars í Nebraska í Bandaríkjunum, sem ákærður var fyrir að myrða svartan mótmælanda, er látinn en hann framdi sjálfsvíg, að því er lögmaður hans greindi frá í gær. Bareigandinn hét Jake Gardner og var 38 ára gamall. 

Hann hafði verið kærður fyrir manndráp, notkun skotvopns við framkvæmd glæps, tilraun til líkamsárásar af fyrstu gráðu og hótanir. Gardner var gefið að sök að hafa skotið hinn 22 ára gamla James Scurlock til bana þann 30. maí síðastliðinn í mótmælum fyrir utan bar Gardner. 

Mótmælin tengdust morði lögreglu á George Floyd. 

Ætlaði fyrst ekki að kæra Gardner

Atvikið náðist á myndband en þar sést faðir Gardners ýta við mótmælendum eftir að hafa beðið þá um að yfirgefa svæðið í kring um bar Gardners. Óþekktur maður ýtti föðurnum til baka og Gardner skarst í leikinn og sýndi skammbyssu sýna, samkvæmt saksóknaranum Don Kleine. Þá stukku tveir mótmælendur á bak við Gardner sem skaut tveimur viðvörunarskotum.

Scurlock, sem átti ekki þátt í fyrsta árekstrinum, kom síðan á vettvant, að sögn Kleine. Gardner sagðist hafa verið settur í svokallaðan höfuðlás (e. headlock) og að hann hafi grátbeðið um að honum yrði sleppt áður en hann skaut Scurlock. Í upphafi neitaði Kleine að ákæra Gardner og sagði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Aðeins nokkrum dögum síðar ákvað hann að endurskoða þá ákvörðun sína. 

Gardner var fyrrum hermaður og hafði tvisvar sinnum farið til Íraks til að sinna herþjónustu. Lögmaður hans segir að Gardner hafi sagt að honum hafi þótt hann vera á stríðssvæði fyrir utan barinn.  

mbl.is