Bond var skjalavörður

Sean Connery í hlutverki sínu sem James Bond.
Sean Connery í hlutverki sínu sem James Bond. Ljósmynd/IMdB

Breskur njósnari að nafni James Bond var sendur til starfa austan járntjaldsins í Póllandi tveimur árum eftir að fyrsta Bond-myndin, Dr. No, var frumsýnd. Þetta kemur fram í nýbirtum gögnum frá pólsku gagnnjósnaþjónustunni.

Bond kom til Varsjár 18. febrúar 1964 og opinber staða hans í breska sendiráðinu var skjalavörður, að því er segir í gögnunum.

Sá Bond, sem þar er lýst, á lítið sameiginlegt með nafna sínum úr skáldsögum Ians Flemings, flagaranum James Bond, sem líður best með vodka-martini í glasi.

Pólskir njósnarar, sem fylgdust með Bond, skráðu að hann hefði „áhuga á konum“, en verið „mjög varkár“ og ekkert samband haft við pólska borgara.

Sagnfræðistofnunin sem birti skjölin sagði að Bond hefði verið lágt settur útsendari með áberandi nafn, enda hefðu „meira að segja njósnarar kommúnista verið kunnugir skáldsagnapersónunni“.

Í október og nóvember 1964 gerði Bond tilraun til að skoða hernaðarmannvirki í Białystok og Olsztyn í norðausturhluta Póllands, skammt frá landamærum Sovétríkjanna sálugu, en virðist ekki hafa orðið ágengt. Hann yfirgaf Pólland 21. janúar 1965.

Fleming var sjálfur njósnari. Hann sagði að nafnið á njósnahetjunni hefði hann fengið að láni þegar hann las bók um fugla í Karabíska hafinu eftir bandaríska fuglafræðinginn James Bond.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert