„Getum enn þá skotið þau öll til bana“

Christian Lueth, fyrrum talsmaður AfD flokksins.
Christian Lueth, fyrrum talsmaður AfD flokksins. AFP

Stærsti öfgahægriflokkur Þýskalands, AfD, hefur sagt upp störfum talsmanni flokksins til fleiri ára, eftir að greint var frá því í fjölmiðlum í Þýskalandi að talsmaðurinn hafði viðrað þær hugmyndir sínar að skjóta eða senda í gasklefa flóttafólk sem kemur til Þýskalands.

Talsmaðurinn, Christian Lueth, lét ummælin falla í samtali sem var tekið upp. Honum var sagt upp störfum í dag og tekur uppsögnin gildi án tafar.

Myndi auka stuðning við flokkinn

Í samtali við hægrisinnaðan blaðamann í febrúar sagði Lueth að það kæmi sér vel fyrir AfD ef fleira flóttafólk fengi alþjóðlega vernd á Þýskalandi. Það myndi auka stuðning við flokkinn að mati Lueth. 

„Við getum enn þá skotið þau öll til bana eftir á. Það er ekki vandamálið. Eða sent þau í gasklefann, hvernig sem við viljum. Mér er sama,“ segir Lueth á upptökunni. „Því verr sem Þýskalandi gengur, því betra fyrir AfD,“ sagði Lueth. 

Lueth fór í launað leyfi síðasta vor eftir að hann lýsti því opinberlega yfir að hann væri fasisti og dásamaði „arískan“ afa sinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina