Emírinn fallinn frá

Sjeik Sabah al-Ahmad al-Sabah.
Sjeik Sabah al-Ahmad al-Sabah. AFP

Emírinn í Kúveit, sjeikinn Sabah al-Ahmed al-Sabah, er látinn, 91 árs að aldri. Frá þessu hefur kúveiska ríkisfréttastofan greint. 

Búist er við að hálfbróðir hans og krónprinsinn, hinn 83 ára gamli sjeik Sheikh Nawaf al-Ahmed, muni taka við. 

Í júlí var flogið með emírinn á sjúkrahús í Bandaríkjunum þar sem hann gekkst undir skoðun eftir að hafa verið í skurðaðgerð í heimalandinu vegna ótilgreinds meins. 

Hann stjórnaði Kúveit frá árinu 2006 og hafði í raun haf yfirumsjón með utanríkismálum landsins í rúma hálfa öld. 

Hann var meðal annars þekktur fyrir að bæta tengsl við ríki sem studdu Íraka í Persaflóastríðinu í byrjun tíunda áratugarins, en íraskar hersveitir réðust inn í Kúveit árið 1990.

Emírinn hefur mikil völd. Hann hefur lokaorðið í pólitískum málefnum. …
Emírinn hefur mikil völd. Hann hefur lokaorðið í pólitískum málefnum. Getur m.a. tekið fram fyrir hendurnar á þinginu, leyst það frá störfum og boðað til kosninga, ef svo ber undir. AFP

Hann var ennfremur þekktur fyrir að taka að sér að miðla málum í alþjóðlegum deilum, m.a. í deilu Sádi-Araba, bandamanna þeirra, við Katar, en sú deila stendur reyndar enn. 

Hann hafði m.a. gegnt embætti sem forsætisráðherra landsins og var einnig utanríkisráðherra frá 1963 til 1991 og svo aftur frá 1992 til 2003.

Alls búa 4,8 milljónir í Kúveit, þar af 3,4 milljónir erlendra ríkisborgara. Landið er í sjötta sæti yfir þau ríki sem eiga mestu olíubirgðir í heiminum og Kúveit er ennfremur dyggur bandamaður Bandaríkjanna. 

Kúveit hefur lotið stjórn Sabah-fjölskyldunnar undanfarin 260 ár. 

mbl.is