Til verndar áhrifavöldum á barnsaldri

Áhrifavaldurinn Ryan Kaji er barn að aldri og rakar inn …
Áhrifavaldurinn Ryan Kaji er barn að aldri og rakar inn milljörðum að sagt er. Skjáskot

Hvernig ber að líta á börn, sem slá í gegn á YouTube eða Instagram? Eru þau börn í vinnu? Og hver á að hafa umsjón með peningunum, sem þau vinna sér inn? Á þriðjudag voru samþykkt lög í Frakklandi þar sem tilraun er gerð til að svara þessum spurningum.
Þeim börnum fer fjölgandi sem eiga stóra hópa fylgjenda á félagsmiðlum. Oft bjóða þeir áhorfendum inn á gafl hjá fjölskyldum sínum eða að fylgjast með lífinu í skólanum á meðan þau ræða allt frá einelti til tónlistar eða veita umsagnir um allt frá leikjum til snyrtivara.

Að sögn franska þingmannsins Brunos Studers, sem var flutningsmaður laganna, er ekkert regluverk fyrir hendi í flestum ríkjum um þessi mál sem ná yfir allt frá friðhelgi einkalífs barna til vinnuréttar. 

Gríðarlegar tekjur

Notkun áhrifavalda í auglýsingaskyni hefur snaraukist á undanförnum árum. Fyrirtæki láta notendur félagsmiðla með marga fylgjendur hafa peninga og vörur í staðinn fyrir kynningu á vörunum.

Samkvæmt samantekt frá fagfélaginu Influencer Marketing Hub er búist við að fyrirtæki muni verja tæpum tíu milljörðum bandaríkjadollara (1.380 milljörðum króna) í „markaðssetningu gegnum áhrifavalda“ á þessu ári. Í fyrra var upphæðin 6,5 milljarðar dollara.

Auglýsingatekjur vinsælustu rásanna á síðum á borð við YouTube geta einnig hlaupið á milljónum dollara.

Samkvæmt tilkynningu frá YouTube, sem er í eigu Google, var Ryan Kaji tekjuhæsti einstaklingurinn á miðlinum í fyrra. Kaji er átta ára drengur. Árið 2019 voru tekjurnar af rásinni hans, Ryan's World, 26 milljónir dollara (3,6 milljarðar króna).

Nánar er fjallað um þetta mál í Sunnudagsblaðinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert