Gera sér upp einkenni í sparnaðarskyni

Neikvæð niðurstaða er eftirsóknarverð.
Neikvæð niðurstaða er eftirsóknarverð. AFP

Það er haustfrí í Þýskalandi og önnur bylgja kórónuveirufaraldursins ríður húsum. Það er mjög til trafala fyrir þá sem hyggjast gera það sem flestir leggja í vana sinn í slíkum fríum, að ferðast.

Ólík svæði í Þýskalandi eru ólíkt illa leikin, sum talin áhættusvæði og önnur ekki. Þegar komið er frá áhættusvæðum til áhættuminni svæða er þess sums staðar krafist að fólk fari annaðhvort í sóttkví eða sýni fram á tveggja daga gamalt vottorð um að það sé ekki sýkt af veirunni.

Þessar reglur skapa nokkra eftirspurn eftir neikvæðum niðurstöðum og læknar standa í ströngu. Í viðtali við taz.de lýsir einn þeirra að við þessar aðstæður afhjúpist ákveðin tilhneiging meðal skjólstæðinga hans til að færa í stílinn þegar kemur að því að lýsa einkennum.

Sýnataka kostar nefnilega ekki ef maður er með einkenni. Ef maður er á hinn bóginn einkennalaus borgar maður sjálfur brúsann. Þetta leiðir að sögn læknisins til þess að fjöldi fólks hringir til hans með harmatölur um hósta og kvef og óskar af einskærri tilviljun eftir tíma nákvæmlega tveimur dögum fyrir brottför.

Sóttvarnaaðgerðir eru í auknum mæli bundnar við sérstök sambandslönd í …
Sóttvarnaaðgerðir eru í auknum mæli bundnar við sérstök sambandslönd í Þýskalandi, eftir að hafa lotið meiri miðstýringu í fyrri bylgju faraldursins. AFP

Vonir bundnar við skyndipróf

Ekki ósvipað fyrirkomulag hefur sums staðar verið við lýði á Íslandi, þar sem einkennasjúklingar fá ókeypis sýnatöku en einkennalaust fólk þarf að greiða fyrir sýnið og komugjald. 

Þannig var því að minnsta kosti háttað hjá heilsugæslunni á Reyðarfirði fyrir fáeinum vikum en á slíkum stöðum eru það oftast starfsmenn fyrirtækja, eins og til dæmis útgerða, sem óska eftir skimun í öryggisskyni án þess að fundið sé til einkenna. Þá borgar fyrirtækið sýnin.

Þýski læknirinn í viðtalinu fagnar því að brátt geti verið tekin í notkun mun fljótvirkari próf en PCR-prófin sem nú er stuðst við. Skyndiprófin eru ekki talin eins örugg en geta sýnt niðurstöðu eftir korter eða hálftíma, í stað eins til tveggja daga. Þessi próf eru þegar aðgengileg læknum í Þýskalandi, þó að hvergi séu þau komin í gagnið sökum þess hve ótraust þau eru enn talin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert