Grunur um morðbrennu

Fólk situr í fangageymslu lögreglunnar í Bergen í Noregi, grunað …
Fólk situr í fangageymslu lögreglunnar í Bergen í Noregi, grunað um að hafa brennt nágranna sinn inni í hádeginu í dag. Lögreglan í Bergen lýsti því yfir í samtali við NRK að grunur léki á morðbrennu en lögmaður lögreglunnar dró úr þeim grunsemdum í samtali við mbl.is í kvöld. Ljósmynd/Wikipedia/Tomoyoshi NOGUCHI

Tvennt, eða tveir, situr eða sitja í varðhaldi lögreglunnar í Bergen í Noregi þar sem grunur leikur á svokallaðri morðbrennu, eða mordbrann, sem er ævafornt hugtak í norskum hegningarlögum og þekktist einnig í íslenskum rétti áður fyrr.

Fólkið er grunað um að hafa valdið bruna í fjölbýlishúsi í Laksevåg þar í bænum upp úr hádegi í dag með því að hafa kveikt í íbúð hverrar íbúi er talinn hafa tapað lífi sínu í, en lík íbúans er svo illa útleikið eftir brunann að lögreglu hefur enn ekki tekist að bera kennsl á það.

„Fólkið er grunað um morðbrennu,“ sagði Arne Fjellstad, lögmaður lögreglunnar í Bergen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK fyrr í kvöld. Kaus Fjellstad þó að tjá sig ekki um hvort grunuðu hefðu kveikt í íbúðinni af ásettu ráði.

Óánægður með yfirheyrslur

„Yfirheyrslur fóru fram í dag og ég var nú ekkert sérstaklega ánægður með þær,“ sagði Fjellstad í samtali við mbl.is í kvöld. „Ég veit að við fórum út með það í dag að þarna væri um morðbrennu að ræða en núna get ég slegið því föstu að það er ekkert víst. Við vitum að grunuðu þekktu húsráðanda íbúðarinnar sem brann en það sem við vitum ekki er hvort eldurinn kom upp fyrir slysni eða af ásettu ráði,“ sagði lögmaðurinn enn fremur.

Kveikir fólk þarna í Bergen í íbúð í sínu eigin húsi af slysni í hádeginu á mánudegi?

„Ég get ekkert sagt um það hvað grunuðu gekk til,“ sagði Fjellstad og neitaði enn fremur að tjá sig um það hvort grunuðu hefðu verið í áfengis- eða lyfjavímu við handtöku. „Á morgun verður ákvörðun um gæsluvarðhaldsbeiðni tekin, en ég ítreka við þig að við sögðum kannski fullmikið í dag, núna eftir yfirheyrslur dagsins treystum við okkur ekki til að fullyrða um hvað grunuðu gekk til og hvort þarna hafi verið um morðbrennu að ræða eða ekki,“ sagði Fjellstad að lokum.

NRK

VG

Bergensavisen (læst öðrum en áskrifendum)

mbl.is