Söguleg kjörsókn í forsetakosningunum

Það stefnir í spennandi kosningabaráttu.
Það stefnir í spennandi kosningabaráttu. AFP

Yfir 90 milljónir Bandaríkjamanna hafa greitt atkvæði í forsetakosningunum að því er talning á upplýsingaveitu kosninganna, U.S. Elections Project, á vegum Flórídaháskóla lætur í ljós. Allt stefnir í að kjörsóknin verði sú mesta sem sést hefur í yfir heila öld í forsetakosningum vestanhafs.

Á sambærilegum tíma í kosningunum árið 2016 höfðu einungis 47 milljónir manna greitt atkvæði, að því er fréttaveita Reuters tekur saman.

Fjöldi greiddra atkvæða hefur náð 65% heildarkjörsóknar í forsetakosningunum árið 2016 og endurspeglar það áhuga almennings á forsetaframbjóðendunum tveimur, Joe Biden og Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Fjöldi fólks hefur greitt atkvæði í pósti eða utan kjörfundar vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins en talið er að meirihluti þeirra sem kjósa þá leið styðji Biden, þar sem Trump hefur talað opinskátt gegn því að mæta ekki á kjörstað þar sem slíkt auki líkur á kosningasvindli.

Í 20 ríkjum hafa 19,9 milljónir skráðra demókrata þegar greitt atkvæði, í samanburði við 13 milljónir repúblikana. Að lokum hafa 10,1 milljón óflokksbundinna greitt atkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert