Smit frestar dómsniðurstöðu í Charlie Hebdo-máli

Málverk eftir Christian Guemy í París sýnir starfsmenn Charlie Hebdo …
Málverk eftir Christian Guemy í París sýnir starfsmenn Charlie Hebdo sem myrtir voru í árás á blaðið árið 2015. AFP

Einu þeirra dómsmála sem rekið er í kringum hryðjuverkaárásina á Charlie Hebdo í París árið 2015 hefur nú verið frestað eftir að sá ákærði greindist með kórónuveiruna.

Ali Reza Polat er sakaður um að hafa hjálpað hryðjuverkamönnunum sem myrtu tólf manns fyrir utan skrifstofur skopmyndablaðsins, en árásin vakti heimsathygli og varð slagorðið „Je suis Charlie“ (ég er Charlie) þekkt sem baráttukall gegn hryðjuverkum íslamskra öfgamanna.

Eftir að smitið kom í ljós krafðist dómari í málinu þess að tíu ákærðir vitorðsmenn yrðu skimaðir fyrir kórónuveirunni áður en meðferð gæti hafist að nýju. Smitið mun líklega fresta niðurstöðu málsins um tæpan mánuð.

Teikning af Ali Reza Polat við réttarhöld yfir honum.
Teikning af Ali Reza Polat við réttarhöld yfir honum. AFP

Fjórtán manns eru ákærðir í tengslum við árásina á Charlie Hebdo og aðrar árásir bæði í matvöruverslun og á lögreglukonu sem urðu til þess að sautján manns létu lífið á þremur dögum.

Ali Reza er talinn vera aðalhlekkurinn á milli árásarmannanna og þeirra sem seldu þeim vopn til ódæðisverkanna. Hann reyndi í kjölfar atburðanna að flýja til Dúbaí, Líbanon og Sýrlands, en tókst það ekki.

Réttarhöldunum hafði þegar verið frestað í fjóra mánuði vegna kórónuveirufaraldursins.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert