Árásirnar skammt frá fastanefnd Íslands

Vopnaðir lögreglumenn fyrir utan óperuhúsið í Vín í gærkvöldi.
Vopnaðir lögreglumenn fyrir utan óperuhúsið í Vín í gærkvöldi. AFP

Hryðjuverkaárásir sem framdar voru í Vín í gærkvöldi áttu sér stað nokkrum götum frá aðsetri fastanefndar Íslands í Vín. Að sögn fastafulltrúa Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafa engar beiðnir borist um aðstoð frá Íslendingum í Vín vegna árásarinnar enn sem komið er. Um 100 Íslendingar eru búsettir í borginni. 

Tveir karl­ar og ein kona létust í árásinni og var einn árásarmaður einnig skotinn til bana af lögreglu. Fleiri hafa verið handteknir vegna málsins en óljóst er hversu margir árásarmennirnir voru. Yfirvöld hafa beðið fólk að halda sig heima. 15 eru særðir eft­ir árás­ina, þar á meðal lög­reglumaður. Sjö þeirra eru í lífs­hættu eða mjög al­var­lega særðir. 

Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands hjá ÖSE, var staddur fyrir utan fastanefnd Íslands þegar blaðamaður náði tali af honum. Fastanefndin er til húsa í miðborg Vínar. 

„Hér var allt lokað í gærkvöldi en mér sýnist sem nú sé daglegt líf að mestu með eðlilegum hætti. Verslanir eru opnar og fólk á ferli en þó ekki eins og jafnaðarlega,“ segir Guðni. 

Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE).
Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Ljósmynd/Stjórnarráðið

Mörg hundruð lögreglumenn á ferli

Mjög margir voru á ferli í gærkvöldi, að sögn Guðna, en um var að ræða kvöldið fyrir allsherjarlokun allra veitinga- og skemmtistaða. Því ákvað fjöldi fólks að nýta síðasta kvöldið sem staðirnir væru opnir. 

„Þessar árásir voru í raun rétt hjá fastanefndinni okkar sem er í miðborg Vínar, staðsett nokkrum götum frá árásunum. Þegar ég geng í gegnum bæinn þá er mjög mikill viðbúnaður og mörg hundruð lögreglumenn á ferli,“ segir Guðni. 

Frá vettvangi í Vín í morgun.
Frá vettvangi í Vín í morgun. AFP

Um 100 Íslendingar búa í Vín og eru þeir flestir inni á sérstökum facebookhópi og segir Guðni að vegna þess hve hópurinn sé vel tengdur sé auðvelt að koma upplýsingum áleiðis. Guðni setti inn innlegg þar í gær þar sem hann bað fólk að hafa samband við sig í farsíma ef eitthvað bjátaði á, sömuleiðis voru settar inn upplýsingar frá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. 

„Sem betur fer hefur engin beiðni borist um aðstoð eða upplýsingar um fólk í vanda, alla vega ekki til mín. Vonandi hefur ekki komið til þess að Íslendingar hafi orðið fyrir tjóni en þetta er allt enn að gerast enn þá ef svo mætti að orði komast. Það er ekki vitað hvort árásarmennirnir voru fleiri og hvar þeir fela sig ef svo er. Það er þannig andrúmsloft, tortryggnisandrúmsloft,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert